Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Erna sækist eftir öðru sæti á lista Miðflokksins

03.07.2021 - 14:46
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Erna Bjarnadóttir, hagfræðingur og fyrrverandi aðstoðarframkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands, sækist eftir öðru sæti á lista Miðflokksins í Suðurkjördæmi.

Erna er forsprakki Facebook-hópsins Aðför að heilsu kvenna, þar sem fyrirkomulagi leghálsskimana er mótmælt, en um 17.000 eru í hópnum.

Í samtali við fréttastofu segir Erna að áhugi hennar á landbúnaði og landbúnaðarstefnu sé kveikjan að framboðinu og þar eigi hún samleið með Miðflokknum. „Ég var líka formaður Heimssýnar um tíma og er annt um að við höldum góðum samskiptum við ESB en göngum ekki þar inn,“ segir hún.

Þótt Erna hafi vakið athygli fyrir baráttuna fyrir öruggum og skilvirkum leghálsskimunum kvenna, segist hún ekki hafa viljað blanda flokkapólitík í það mikilvæga mál.

Tveir þingmenn bítast um oddvitasætið

Miðflokkurinn stillir upp á lista í öllum kjördæmum, en þegar fréttastofa leitaði upplýsinga frá flokknum um miðjan síðasta mánuð stóð til að birta lista í lok júní.

 

Tveir sækjast eftir efsta sætinu í kjördæminu, þingmennirnir Birgir Þórarinsson og Karl Gauti Hjaltason. Birgir leiddi lista flokksins í síðustu kosningum, en Karl Gauti var oddviti Flokks fólksins allt þar til hann skipti yfir í Miðflokkinn í kjölfar Klausturmálsins.