Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Biðla til Amazon að breyta nafni Alexu

03.07.2021 - 13:50
Mynd með færslu
 Mynd: Amazon
Fjöldi foreldra stúlkna sem heita Alexa hafa biðlað til Amazon, sem framleiðir raddstýringarbúnað sem heitir því nafni, að breyta nafni búnaðarins því dætrum þeirra sé stanslaust strítt.

Alexa kom fyrst á markað árið 2014 og er raddstýring í gagnvirkum hátalara. Með því að segja fyrst Alexa getur fólk skipað snjalltækjum frá Amazon fyrir og til dæmis beðið um ákveðnar upplýsingar. Síðan tækin komu á markað hafa Alexur um allan heim orðið fyrir mikilli stríðni þar sem fólk segir nafnið þeirra og skipar þeim svo fyrir. Þetta gerist nær alls staðar þar sem þær eru, hvort sem það er í skólanum, á leikvellinum eða í vinnunni.

Í umfjöllun Breska ríkisútvarpsins, BBC, segir að fjöldi foreldra hafi sett sig í samband við Amazon og beðið um að eitthvert annað orð en Alexa verði notað til að gefa skipanir - eins að það verði ekki mannanafn. 

Í yfirlýsingu frá fyrirtækinu segir að sorglegt sé að heyra af stríðninni en að hver og einn geti breytt orðinu í sínu tæki. Breska ríkisútvarpið greinir frá því að börn hafi látið breyta nafni sínu vegna þessa og eins að vinsældir nafnsins í Bretlandi hafi dalað mikið síðan Alexa kom á markað. Árið 2016 var nafnið í 167. sæti yfir vinsælustu nöfnin í Bretlandi en var komið í sæti 920 þremur árum síðar.