Þriðja bylgja COVID-faraldursins er mjög skæð í Namibíu. Skortur er á hlífðarfatnaði fyrir heilbrigðisstarfsfólk og aðeins eitt prósent landsmanna hefur verið bólusett.
Óttast er að þriðja bylgja faraldursins eigi enn eftir að versna og ná hámarki í Namibíu í ágúst. Í fyrstu viku júnímánaðar voru greind um fimm hundruð smit á dag, en núna eru smitin dag hvern um átján hundruð. Sex hundruð og fimmtíu dauðsföll vegna veirunnar voru skráð í júní. Sem stendur eru í landinu fleiri dauðsföll á hverja milljón íbúa en í Indlandi og Brasilíu. Verið er að rannsaka hvort Delta-afbrigðið sé farið að smitast um landið. Þessa dagana er um 41 prósent skimana jákvæðar.
Namibíski fjölmiðillinn, The Namibian, greinir frá því að vaxandi skortur sé á hlífðarfatnaði fyrir heilbrigðisstarfsfólk sem neyðist til að nota sömu grímurnar jafnvel dögum saman. Ferðabann er í gildi og er þing landsins hætt að koma saman. Það er gert því margir þingmenn þurfa að ferðast um langan veg.
Namibía fær bóluefni frá Covax, alþjóðlegu samstarfi um dreifingu bóluefna til fátækra ríkja. Aðeins er búið að bólusetja eitt prósent landsmanna, en von er á nokkur hundruð þúsund skömmtum af bóluefni á næstu dögum.