Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Krómhúðað rökkurpopp

Mynd með færslu
 Mynd: Sony music - Eternity

Krómhúðað rökkurpopp

02.07.2021 - 09:57

Höfundar

Kaldur, krómaður, dimmur og stálkaldur tónninn á Eternity, fyrstu plötu tónlistarkonunnar Karítasar, hittir í mark hjá Arnari Eggerti Thoroddsen gagnrýnanda. „Karítas er lunkinn textasmiður og hefur innsýn í að ekki er allt svart og hvítt þegar komið er inn á vígvöll ástarinnar.“

Arnar Eggert Thoroddsen skrifar:

Karítas hefur látið að sér kveða í Reykjavíkurdætrum en að þessari plötu hefur hún unnið síðan í janúar 2020 með upptökustjórunum og tónlistarmönnunum Daða Frey, Einari Má og Eðvard Óliverssyni. Karítas semur lög og texta.

Eitt af því sem við Norðurlandabúar kunnum lagið á þegar kemur að popptónlist er að glæða hana áhrifum frá því umhverfi sem við þrífumst í. Dimmar nætur, kuldi, snjór, melankólía og epík sem fær fólk til að missa andann, allt þetta kunnum við upp á tíu. Rökkurpoppið er okkar. Ég hef áður rætt um óeiginlegan undirgeira skandínavískrar popptónlistar, ísprinsessupoppið sem hefur verið stundað af konum eins og Eivöru, Lykke Li, Susan Sundför, Agnesi Obel og okkar eigin Sóleyju, svo fáein dæmi séu tekin. Vel er hægt að stilla Karítas þarna upp líka.

Þessi blær gerir þessa plötu, meira og minna. Ég fíla með öðrum orðum undirtóninn, sem er kaldur, krómaður, dimmur og stálkaldur. Við erum að dansa þunglyndislega dansa í diskóteki framtíðarinnar. Árið er 2254 og þarna sé ég Karítas, svört frá toppi til táar og með geislakylfu í hendi, veit ekki alveg með notagildi hennar hins vegar. Eins og glöggir lesendur sjá er ég að vísa í umslagið, sem undirstrikar vel þann anda sem um plötuna leikur. Leturgerðin og uppstillingin öll kallar fram myndir eins og Tron og Star Wars.

Þetta er heilsteypt plata, sem viðheldur löturlegu, angurværu hljómfalli út í gegn. Sjá „The girl that you want“, sem skríður áfram í gotneskum dumbungi, nánast eins og hægt hafi verið handvirkt á framvindu lagsins. Textinn er sársaukafullur, talar inn í hræðslu og skömm og ógnir ástarinnar eru settar í skýrt ljós: „I‘m scared to be the girl that you want“. Taktvinna og tónar laga miða ávallt að þessu marki. Platan er nánast „industrial“, Trent Reznor í estrógenham. Íslenskt samhengi væri til dæmis Warmland og Vök, þessi svala og nánast vélræna nálgun. Karítas syngur þannig eftir efninu, röddin er góð en þessi fjarlægð, sem stíllinn kallar í raun á, er þarna. Hún er hvíslandi, lágvær, til baka en ástríðufull og ertandi þegar svo ber við. Sjá til dæmis „Better without you“ þar sem söngkonan er greinilega búin að fá nóg af ástmeginum og lætur skína lítið eitt í vígtennurnar. Besta lagið er lokalagið, „Bittersweet“, hvar allar varnir falla niður. Uppgjör sem virkar, söngurinn einlægur og ægifagur. Karítas er lunkinn textasmiður og hefur innsýn í að ekki er allt svart og hvítt þegar komið er inn á vígvöll ástarinnar. Hún og kærastinn eru að reyna að hætta saman en það er vandlifað. „I know we said we‘d keep it simple / but how could I resist the dimple that peaks on your cheek everytime that you are smiling at me.“

Lagasmíðarnar hér, níu talsins, eru vissulega missterkar en platan sigrar á þessum sterka heildartón sem ég hef verið að lýsa. Allt í allt mjög lofandi frumraun og ég væri alveg til í að sjá þetta þróast enn frekar.

Tengdar fréttir

Popptónlist

Karítas - Eternity