Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Metfjöldi í sjúkraflutningum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Mikill erill hefur verið í skjúkraflutningum síðasta sólarhringinn en Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins fór 130 ferðir í gær og í nótt. Það er ekki nóg með að síðustu dagar hafi verið með drjúgasta móti hvað sjúkraflutninga varðar heldur hefur aukningin allt síðasta ár verið gríðarleg, að sögn Sigurjóns Hendrikssonar, vaktstjóra hjá Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu.

Aldrei séð svona daga áður

„Ef við tökum fyrstu sex mánuði ársins þá erum við búin að fara í 3.500 fleiri flutninga á árinu en á síðasta ári. Og þessir stóru dagar sem við erum að sjá, með allt að 130 flutningum á dag, höfum við bara ekki verið að sjá fyrr en á þessu ári. Þeir eru orðnir 16 á fyrstu sex mánuðunum.“

Faraldurinn skýrir ekki nema þriðjung

Ætla mætti að faraldrinum væri hér um að kenna en þó er ekki alfarið hægt að skella skuldinni á hann þó vissulega eigi hann hlut að máli. Álagið hefur aukist á mannskapinn en sjúkraflutningar sem tengjast faraldrinum beint eru þó ekki nema um þriðjungur aukningarinnar. Fjölgað hefur í öllum flutningum, forgangsflutningum, almennum veikindum í heimahúsum og flutningum á milli spítala, segir Sigurjón. Skýringuna sé að finna í samspili ýmissa þátta.

Lægri þröskuldur en áður

Einn þeirra þátta sé mögulega sá að almenningur sæki meira í sjúkraflutningaþjónustu en áður og sama megi segja um stofnanir. „Við höfum alltaf lagt upp með að vera með hátt og gott þjónustustig og og það birtist í því að fólk sækir meira í þjónustuna. Það má vera að þröskuldurinn fyrir því að hringja í sjúkrabíl sé orðinn lægri en áður var.“