Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Ford Escort Díönu prinsessu seldur til Suður-Ameríku

29.06.2021 - 12:38
Auctioneer Lewis Rabett polishes the 1981 silver Ford Escort 1.6L Ghia saloon car once owned by Princess Diana before being auctioned for 52,640 pounds (73,000 dollars US) at Reeman Dansie in Colchester, England, Tuesday June 29, 2021.  The car was given to the then Lady Diana Spencer by Prince Charles, as an engagement present two months before their marriage in July 1981.  The current owner kept the car's origins a secret for 20 years. (Joe Giddens/PA via AP)
 Mynd: AP - PA
Ford Escort-bíll, sem eitt sinn var í eigu Díönu prinsessu af Wales, var seldur í dag fyrir rúmlega 52 þúsund sterlingspund, um það bil níu milljónir króna. Kaupandinn er safn í Suður-Ameríku. Bílinn fékk Díana í trúlofunargjöf frá verðandi eiginmanni sínum, Karli ríkisarfa, í maí 1981, tveimur mánuðum fyrir brúðkaup þeirra í dómkirkju heilags Páls í Lundúnum.

Fyrri eigandi bílsins keypti hann á uppboði árið 1982 fyrir sex þúsund pund. Hann hélt því ávallt leyndu að hann hefði verið í eigu Díönu. Bíllinn er enn á sömu skráningarnúmerum og þegar Díana eignaðist hann. Samkvæmt kílómetrateljara er búið að aka honum 133.575 kílómetra, sem telst býsna lítið miðað við bíl sem kom á götuna fyrir fjörutíu árum.

Uppboðshúsið sem seldi Escortinn að þessu sinni hafði reiknað með því að fá 30-40 þúsund pund fyrir hann. Hann verður sendur á næstunni til kaupandans í Suður-Ameríku þar sem hann verður væntanlega til sýnis.

Dína prinsessa lést í bílslysi í París í ágúst 1997, 36 ára að aldri. Synir hennar, Vilhjálmur og Harry, afhjúpa á fimmtudaginn styttu af henni við heimili hennar í Kensingtonhöll í Lundúnum í tilefni þess að þá hefði hún orðið 60 ára.

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV