Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Ítalir sleppa grímunum utandyra

28.06.2021 - 16:06
Mynd: AP / LaPresse
Grímuskylda utandyra var afnumin í dag alls staðar á Ítalíu. Lítil hætta er talin á að kórónuveiran breiðist þar út um þessar mundir - í fyrsta sinn frá því að farsóttin braust þar út í febrúar í fyrra.

Að sögn heilbrigðisyfirvalda í Rómaborg eru öll héruð landsins skilgreind hvít svæði frá og með deginum í dag. Notast er við fjóra liti til að greina ástandið; hvítt, gult, appelsínugult og rautt.

Ítalskir fjölmiðlar segja að landsmenn taki þeim tíðindum fagnandi að vera lausir við hlífðargrímurnar utandyra, ekki síst í ljósi þess að útlit er fyrir að hitinn fari yfir fjörutíu stig á nokkrum svæðum í suðurhluta landsins í þessari viku. Allnokkrir voru þó enn með grímu fyrir vitunum þegar þeir fóru að heiman í morgun, annaðhvort af gömlum vana eða vegna þess að þeir vildu hafa vaðið fyrir neðan sig. Sumir ferðamenn hafa einnig varann á. Þriðjungur Ítala tólf ára og eldri hefur verið full-bólusettur gegn kórónuveirunni, það er 17,8 milljónir.

Ferðafólk frá Evrópusambandslöndum, Bandaríkjunum, Kanada og Japan má koma til landsins - geti það sannað að það hafi verið bólusett eða fengið staðfestingu um að vera ósmitað. Roberto Speranza heilbrigðisráðherra skorar á fólk að fara að öllu með gát þrátt fyrir tilslakanir, þar sem delta-afbrigði kórónuveirunnar dreifist hratt út í ýmsum öðrum löndum. Baráttunni við veiruna sé alls ekki lokið. 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV