Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Fyrsta tölvuleikjafyrirtækið á markað

stefán gunnarsson framkvæmdastjóri solid cloulds og stefán þór björnsson fjármálastjóri solid clouds
 Mynd: Solid Clouds
Solid Clouds verður fyrsta og eina tölvuleikjafyrirtækið á íslenskum hlutabréfamarkaði þegar viðskipti með bréf í fyrirtækinu hefjast í júlí. Hlutafjárútboð hófst í morgun.

Hlutafjárútboðið hófst í morgun og stendur fram á miðvikudag. Solid Clouds framleiðir tölvuleiki fyrir snjallsíma og PC tölvur og hefur getið sér nafn fyrir Starborne tölvuleikina, en fyrsti leikurinn í seríunni náði til 400 þúsund notenda. Á næsta ári kemur svo flaggskip fyrirtækisins út, Starborne:Frontiers þar sem spilarar bregða sér í hlutverk foringja yfir geimflota sem safnar sér geimskipum og berst við óvini úr ýmsum fylkingum.

Nýtt hér en viðtekin venja erlendis

Á undanförnum vikum hafa þrjú stór fyrirtæki verið skráð á markað, Síldarvinnslan, Íslandsbanki og Play. Í öllum tilvikum var mikill áhugi á bréfum og umframeftirspurn margföld. Stefán Gunnarsson, framkvæmdastjóri Solid Clouds, segist skynja mikinn áhuga á bréfum í fyrirtækinu en útboðið markar tímamót að því leyti að Solid Clouds verður fyrsta og eina tölvuleikjafyrirtækið á markaði hérlendis.

„Þetta er í sjálfu sér þekkt fyrirbæri í nágrannalöndum hjá okkur að nýsköpunarfyrirtæki sem Solid Clouds sannarlega er, að þau fari á markað. Og þetta er þróun sem við höfum séð til dæmis í Svíþjóð og Póllandi. Ég held að það séu 70 leikjafyrirtæki á pólska markaðnum,“ segir Stefán.

Skattaafsláttur í boði

Útboðið er óhefðbundið að því leyti að einstaklingar sem fjárfesta í fyrirtækinu fyrir að minnsta kosti 300 þúsund fá skattaafslátt. Það er vegna þess að Solid Clouds er skilgreint sem lítið nýsköpunarfyrirtæki og er markmiðið að hvetja til fjárfestingar í nýsköpun. Stefán Þór Björnsson, fjármálastjóri, segir að skattahvatakerfi sem þetta hafi gefist mjög vel í Bretlandi. 

„Þeir fjárfestar, það er að segja einstaklingsfjárfestar, ekki fyrirtæki, sem kaupa í Solid Clouds geta fengið 75 prósent lækkun á tekjuskatts- eða fjármagnstekjuskattsstofni með því að fjárfesta í fyrirtækinu, upp að 15 milljónum. Það er náttúrlega mismunandi hvernig tekjuskattsstofn hvers og eins fjárfestis er en í mörgum tilvikum að þá er viðkomandi fjárfestir að fá cirka einn þriðja af fjárfestingunni tilbaka í gegnum skattkerfið árið eftir.“

Alls eru 40 milljón hlutir í boði en ef eftirspurn verður mikil er heimild til að selja 18 milljónir hluti til viðbótar. Tvær áskriftaleiðir eru í boði og er verð á hvern hlut 12,5 krónur í þeim báðum. Verði útboðið stækkað gefur útboðsgengið félaginu markaðsvirði upp á 2,3 milljarða króna. Niðurstöður útboðsins verða kynntar á fimmtudaginn.

Magnús Geir Eyjólfsson