Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Fjölskyldur flýja átök í Kunduz

26.06.2021 - 14:28
Mynd með færslu
 Mynd: AP
Um fimm þúsund afganskar fjölskyldur hafa flúið heimili sín í borginni Kunduz vegna átaka talíbana og afganska stjórnarhersins undanfarna rúma viku. Alls hafa 29 almennir borgarar látið lífið og á þriðja hundrað særst.

Talíbanar hafa tvisvar náð stjórn á Kunduz borg á undanförnum árum og hafa nú sölsað undir sig úthverfi og landamærastöð á landamærunum að Tadsjikistan.

Fulltrúi flóttamannahjálpar í Afganistan segir í samtali við AFP fréttastofuna að margar af fjölskyldunum hafi leitað skjóls í höfuðborginni Kabúl og öðrum héruðum. Aðrar hafist við í skólum í Kunduz borg og hafi þar fengið mat og aðra neyðaraðstoð.   

Talíbanar halda því fram að þeir hafi náð yfirráðum í nærri 90 af rúmlega  400 umdæmum landsins. AFP fréttastofan segir erfitt að sannreyna hvort þær fullyrðingar séu réttar; stjórnvöld í Afganistan segi þær ekki réttar. 

Átök hafa magnast í Afganistan frá því að bandarísk stjórnvöld hóf að flytja heim tvö þúsund og fimm hundruð bandaríska hermenn frá landinu. Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, hefur heitið því að allt herlið Bandaríkjanna verði farið frá Afganistan ellefta september. Þar með verði endi bundinn á stríðið sem hafi verið það lengsta í bandarískri sögu.  

Hvorki gengur né rekur í friðarviðræðum stríðandi fylkinga í Qatar. 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV