Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Finnar óttast COVID-bylgju í kjölfar fótboltafárs

26.06.2021 - 07:43
Mynd með færslu
 Mynd: Juuso Stoor - yle
Finnar hafa áhyggjur af því að ný bylgja kórónaveirusmita sé í þann mund að ríða yfir landið eftir að fjöldi fótboltaáhugafólks sneri aftur frá Pétursborg með Delta-afbrigði COVID-19 í farteskinu. Finnar kepptu við Rússa í Pétursborg á Evrópumótinu í fótbolta á dögunum.

Í frétt á vef finnska ríkisútvarpsins, yle, segir að nær 100 finnskir áhorfendur á þeim leik hafi þegar greinst með Delta-afbrigðið eftir að þeir sneru aftur heim. Fyrir liggur að þetta afbrigði, sem er talið meira smitandi en flest önnur, er ríkjandi í Rússlandi um þessar mundir og breiðist þar hratt út.

Þrátt fyrir þetta var um það bil 800 stuðningsmönnum finnska landsliðsins leyft að snúa heim frá Rússlandi í liðinni viku án undangengins PCR-prófs. Haft er eftir Lasse Lehtonen, sérfræðingi hjá heilbrigðisyfirvöldum í Helsinki, að sóttvarnastofnun höfuðborgarinnar sé þar að auki kunnugt um nokkur staðfest dæmi um að fótboltaferðalangarnir hafi ekki fylgt reglum um sóttkví eftir heimkomuna.

Þar á meðal eru nokkrir, segir í frétt yle, sem hafi farið út á meðal fólks, jafnvel á veitingastaði, þrátt fyrir að hafa farið í skimun og fengið jákvæða niðurstöðu úr henni. Lehtonen segir kórónaveirusmitum fara fjölgandi á höfuðborgarsvæðinu og að tvöfalt fleiri hafi greinst með COVID-19 úr hópi Rússlandsfaranna í þessari viku en vikunni á undan.