Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Allar sóttvarnatengdar takmarkanir fallnar úr gildi

Mynd með færslu
Þessi mynd er tekin á Arnarhóli á Menningarnótt 2017. Niðurfelling allra samkomutakmarkana á miðnætti þýðir að skipuleggjendur fjöldasamkoma á borð við Menningarnótt, Þjóðhátíð, Gleðigönguna og Fiskidaginn mikla fara nú væntanlega að bretta upp ermarnar og hefja undirbúning á fullum dampi. Mynd: RÚV
Á miðnætti féllu úr gildi allar reglugerðir um sóttvarnatengdar hömlur og takmarkanir á því, hversu margt fólk má koma saman hér á landi, hvar það má hittast, hvenær og með hvaða hætti.

Ýmsar mis strangar og víðtækar reglugerðir þar að lútandi, sem allar miðuðu að því að takmarka útbreiðslu COVID-19 og kórónaveirunnar sem veldur þeirri skæðu pest, höfðu þá gilt í fimmtán mánuði og níu dögum betur og tekið margvíslegum breytingum á þeim tíma.

Í gær kynnti Svandís Svavarsdóttir svo reglugerð sem kveður einfaldlega á um brottfall reglugerðar um takmörkun á samkomum vegna farsóttar. Á fréttamannafundi í Þjóðmennningarhúsinu útskýrði Svandís að þetta þýddi að frá og með miðnætti féllu úr gildi allar samkomutakmarkanir innanlands, þar með taldar fjöldatakmarkanir, grímuskylda, nálægðarreglan og sóttvarnatengdar reglur um opnunartíma.