Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Mannskaðaveður í Tékklandi

25.06.2021 - 01:10
Erlent · Hamfarir · Tékkland · Evrópa · Veður
View of the wreckage after a Tornado hit the village of Moravska Nova Ves in the Hodonin district, South Moravia, Czech Republic, on Thursday, June 24, 2021. A rare tornado hit towns and villages in southeast part of the country, injuring some 150 people and damaging hundreds of houses. Some 200 police officers have been deployed in the region to help the rescue workers. (Vaclav Salek/CTK via AP)
 Mynd: AP
Nokkur dóu og tugir slösuðust þegar mannskaðaveður gekk yfir suðaustanvert Tékkland í gær, fimmtudag, samkvæmt viðbragðsaðilum á vettvangi. Skýstrókur skildi þar eftir sig slóð eyðileggingar og eirði engu sem fyrir varð. „Því miður getum við staðfest að fólk hefur látið lífið, en ég get ekki upplýst um nákvæman fjölda að svo stöddu,“ sagði Hedvika Kropackova, talskona neyðarþjónustu í héraðinu í samtali við tíðindamann AFP-fréttastofunnar.

Hún sagði ólíklegt að hin látnu fylltu tuginn en of snemmt væri þó að fullyrða nokkuð um það, þar sem fólk væri enn grafið í húsarústum og öðru braki.

Óljóst hve mörg slösuðust

Framan af var talið að á bilinu 100 - 150 hefðu slasast í óveðrinu, en Kropackova telur líklegra að þau skipti einhverjum tugum. Það er á skjön við upplýsingar frá sjúkrahúsinu í bænum Hodonin, nærri slóvakísku landamærunum, um að þar hafi allt að 200 manns notið aðhlynningar. Jan

Hamacek, innanríkisráðherra greindi frá því á Twitter að „allt tiltækt björgunarlið [væri] að störfum eða á leið til Hodonin og nágrennis, þar sem hvirfilbylur skall á nokkrum bæjum.“  Tékkneski herinn var kallaður til björgunarstarfa á hamfarasvæðinu og bæði Austurríki og Slóvakía sendu mannskap til að aðstoða við leit og björgun.

Högl á stærð við tennisbolta og mikið tjón á mannvirkjum

Hvirfilbylnum fygldi ógnarhaglél með höglum á stærð við tennisbolta. Umtalsvert tjón varð á mannvirkjum í illviðrinu og hefur tékkneska sjónvarpsstöðin CTK eftir bæjarstjóranum í Hrusky að bylurinn hafi jafnað hálft þorpið við jörðu. Rafmagn fór af á stóru svæði og miklar truflanir urðu líka á samgöngum. Meðal annars lokaðist aðal hraðbrautin milli Prag og Bratislava, höfuðborgar Slóvakíu, þegar rafmagnslínur slitnuðu og lokuðu veginum. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV