Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Biðlistinn eftir félagslegu húsnæði styttist

25.06.2021 - 10:28
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Stöðug fækkun virðist vera á fjölda umsækjenda á bið eftir félagslegu leiguhúsnæði samkvæmt gögnum frá velferðarsviði Reykjavíkurborgar. Þetta kemur fram í Hagsjá Hagfræðideildar Landsbankans um fasteignamarkaðinn á Íslandi.

Þar kemur fram að við upphaf júnímánaðar voru alls 804 umsækjendur á biðlista eftir íbúð sem eru 204 færri en á sama tíma í fyrra og 473 færri en á sama tíma árið 2019. Þó vissulega séu enn margir á bið eftir íbúð, hljóti þetta að vera til marks um að staðan á leigumarkaði fari batnandi og aðgengi fólks að húsnæði um leið. 

Félagslegum íbúðum hefur fjölgað og mánaðarlegur fjöldi nýrra úthlutana því einnig. Þetta staðfestir Regína Ástvaldsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar. „Félagsbústaðir hafa keypt töluvert mikið af húsnæði upp á síðkastið og úthlutunum fjölgað í kjölfarið.“

Þá hafa kjör á almennum leigumarkaði batnað talsvert, að sögn Regínu, sem dregur að sama skapi úr eftirspurn í félagslega kerfinu. „Leiguverðið á almenna markaðnum hefur ekki haldið í við þá hækkun sem orðið hefur á húsnæðismarkaðnum. Viðráðanlegri kjör á almennum leigumarkaði þýða að færri sækja um félagslegt húsnæði.“

Samkvæmt könnun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar hefur hlutfall leigjenda sem segist búa við húsnæðisöryggi aukist úr 65% árið 2019 upp í 71% í fyrra. Allt bendir þetta til þess að staðan á húsnæðismarkaði fari að mörgu leyti batnandi.