Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Þriðja bylgja COVID-19 ríður yfir Brasilíu

24.06.2021 - 03:12
epa09297408 A worker stands in a tribune without fans due to coronavirus restrictions, before the start of the Group B soccer match of the Copa America 2021 between Ecuador and Peru, at the Pedro Ludovico Teixeira Olympic Stadium in Goiania, Brazil, 23 June 2021.  EPA-EFE/Fernando Bizerra Jr
Suður-Ameríkumótið í fótbolta stendur nú sem hæst í Brasilíu en áhorfendur eru fjarri góðu gamni vegna sóttvarnareglna. Mynd: EPA-EFE - EFE
Þriðja bylgja heimsfaraldurs kórónaveirunnar ríður nú yfir Brasilíu, samkvæmt brasilískum heilbrigðisyfirvöldum. Þar greindust í gær 115.228 manns með COVID-19, fleiri en nokkru sinni fyrr á einum sólarhring þar í landi. 2.392 dauðsföll voru rakin til sjúkdómsins í gær.

Þar með hafa minnst 507.109 dáið úr COVID-19 í Brasilíu, fleiri en nokkurs staðar nema í Bandaríkjunum, þar sem ríflega 600.000 hafa dáið úr eða vegna COVID-19 svo staðfest sé. Nýsmitum hefur fjölgað stöðugt í landinu í rúman mánuð og dauðsföll hafa verið um og yfir 2000 á dag frá því í síðustu viku. 

Tæplega 18,2 milljónir hafa greinst með veiruna í Brasilíu, en talið er næsta öruggt að mun fleiri hafi hvort tveggja veikst og látist af hennar völdum þótt það komi ekki fram í opinberum tölum.