Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

„Þær eru báðar sjálfstæðis...svona...framapotarar“

24.06.2021 - 18:23
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Nefnd um eftirlit með lögreglu telur að háttsemi tveggja lögregluþjóna, sem fóru í Ásmundarsal á Þorláksmessu, geti telist ámælisverð og tilefni sé til að senda þann þátt til meðferðar lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Á búkmyndavél eins þeirra heyrist hann segja: „Hvernig yrði fréttatilkynningin....40 manna einkasamkvæmi og þjóðþekktir einstaklingar..., er það of mikið?“

Mál Ásmundarsalar vakti mikla athygli um jólin. Kórónuveirufaraldurinn var þá í fullum gangi og landsmenn höfðu verið hvattir til að búa til „jólakúlu“ og það væri best ef í henni væru um tíu manns. 

Lögreglan greindi frá því í dagbókarfærslu til fjölmiðla á aðfangadag að samkvæmi hefði verið leyst upp vegna brota á sóttvarnareglum og að meðal gesta hefði verið „einn háttvirtur ráðherra í ríkisstjórn Íslands.“ Ráðherrann reyndist vera Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra.

Í dag greindu eigendur Ásmundarsalar svo frá því að þeir hefðu greitt sekt fyrir brot á grímuskyldu. Þeir hefðu ekki brotið reglur um fjöldatakmarkanir eða opnunartíma og þetta hefði ekki verið samkvæmi heldur sölusýning. 

Nefnd um eftirlit með störfum lögreglu tók málið upp að eigin frumkvæði til að skoða samskipti lögreglu við fjölmiðla. Auk þess barst kvörtun frá eigendum Ásmundarsalar. 

Í úrskurði nefndarinnar, sem fréttastofa hefur undir höndum, kemur fram að nefndin hafi fengið upptökur úr búkmyndavélum þriggja lögreglumanna.  Á einni upptöku má heyra lögreglumann segja. „Hvernig yrði fréttatilkynningin.. 40 manna einkasamkvæmi og þjóðþekktir einstaklingar..er það of mikið eða?“

Annar lögreglumaður svarar og segir: „Ekki fyrir mig, ég myndi lesa það. Ég þekkti tvær stelpur þarna uppi og þær eru báðar sjálfstæðis...svona...frampotarar eða þú veist.“

Nefndin segir að hljóðið á búkmyndavél þriðja lögreglumannsins hafi verið fremur óljós og óskýrt.  Hún telur að háttsemi tveggja lögreglumanna geti talist ámælisverð og þess eðlis að tilefni sé til að senda þann þátt málsins til meðferðar lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.

Nefndin telur jafnframt ástæðu til að ítreka mikilvægi hlutleysis starfsmanna lögreglu og að þeir gæti orða sinna í hvívetna við allar þær aðstæður sem þeir finna sig í við störf sín.

Nefndin gerir einnig athugasemdir við dagbókarfærsluna á aðfangadag og segir að vísbendingar séu uppi um að hún hafi verið efnislega röng. Ekkert tilefni hafi verið til upplýsingagjafar af þessu tagi. Beinir nefndin því til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að vandað verði betur til verka þegar komi að upplýsingagjöf embættisins til fjölmiðla.

Fram kemur í úrskurði nefndarinnar að lögreglustjórinn hafi rætt  við þá starfsmenn sem hafi komið að gerð dagbókarfærslna og reglur sem í gildi séu varðandi fjölmiðlasamskipti áréttaðar.  Markmið þeirra reglna sé að tryggja að persónugreinanlegar upplýsingar fari ekki frá embættinu.

Þau sem skrifa undir niðurstöðu nefndarinnar eru Skúli Þór Gunnsteinsson, formaður, Kristín Edwald og Þorbjörg Inga Jónsdóttir.