Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Sameining ekki tímabær að sinni

Mynd með færslu
Þjóðvegur 1, við Vatnsdalshóla. Mynd: Dagný Hulda Erlendsdóttir - RÚV
Ekki verður af sameiningu Húnavatnshrepps og Blönduósbæjar að sinni. Tillaga um að kosið yrði um sameiningu samhliða alþingiskosningum í haust var felld.

Mismikill vilji til sameiningar

Þann 5. júní var kosið um sameiningu allra sveitarfélaganna í Austur-Húnavatnssýslu. Tillagan var felld en úrslit kosninganna sýndu mismikinn vilja sveitarfélaganna fjögurra til sameiningar. Sameiningartillagan var samþykkt í Húnavatnshreppi og Blönduósbæ en felld í sveitarfélaginu Skagaströnd og Skagabyggð.

Vonir stóðu til að Blönduós og Húnavatnshreppur gætu haldið sameiningarviðræðum áfram. Minnihlutinn í Húnavatnshreppi lagði til á fundi sveitarstjórnar í gær að farið yrði í formlegar viðræður við Blönduós og kosið yrði um sameiningu samhliða alþingiskosningum 25. september. Meirihlutinn felldi tillöguna.

„Þetta var hitafundur“

Ragnhildur Haraldsdóttir, varaoddviti sveitarstjórnar Húnavatnshrepps var ein fundarmanna. „Þetta var auðvitað svolítill hitafundur því það eru skiptar skoðanir um þetta mál. Hins vegar var það niðurstaðan hjá meirihluta sveitastjórnar Húnavatnshrepps á þessari stundu að fara ekki í viðræður við Blönduósbæ.“

Enn vilji til að ræða sameiningu

Að tillagan hafi verið felld felur þó ekki í sér að sameining sé slegin út af borðinu. „Við þurfum bara að gefa okkur aðeins meiri tíma í þetta og mér finnst mikilvægt að árétta að við erum ekki að hafna viðræðum við Blönduósbæ heldur teljum við það ekki tímabært að rjúka strax í þessa vinnu nú í sumar,“ segir Ragnhildur.