Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Minnihlutastjórn Trudeaus hélt velli

24.06.2021 - 03:34
Mynd með færslu
Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, hefur afar þungar áhyggjur af því, að kínversk yfirvöld taki þá geðþóttaákvörðun að dæma kanadískan ríkisborgara til dauða Mynd:
Minnihlutastjórn Justins Trudeaus, forsætisráðherra Kanada, stóð af sér jafngildi atkvæðagreiðslu um vantraust í gær, þegar atkvæði voru greidd um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar í neðri deild þingsins. Kanadíski Íhaldsflokkurinn og aðrir flokkar á hægri væng stjórnmálanna sameinuðust gegn fjárlagafrumvarpinu og hvöttu aðra flokka til að gera hið sama. Það gekk þó ekki eftir því aðrir flokkar lögðust á sveif með Frjálslynda flokknum og var frumvarpið samþykkt með 211 atkvæðum gegn 121.

Frumvarpið kveður á um útgjöld upp á ríflega 100 milljarða Kanadadala frá 1. apríl á þessu ári til marsloka á því næsta. Það verður lagt fyrir öldungadeildina á föstudag, þar sem það verður að öllum líkindum samþykkt með öruggum meirihluta. Hlé verður gert á störfum þingsins eftir það.

Samkvæmt frétt AFP þykir allt eins líklegt að Trudeau láti freistast til notfæra sér þann mikla meðbyr sem hann og flokkur hans hafa um þessar mundir og boða til snemmbúinna kosninga síðsumars, í von um að endurheimta meirihluta sinn á þingi. Þeim meirihluta tapaði Frjálslyndi flokkurinn haustið 2019, og hefur stjórn Trudeaus því þurft að reiða sig á stuðning minni flokka þetta kjörtímabil.