Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Íslenskar konur eigi betra skilið í heilbrigðismálum

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
„Íslenskar konur eiga mun betra skilið þegar konur sitja í æðstu embættum landsins sem lúta að heilbrigðismálum,“ segir Ebba Margrét Magnúsdóttir, fæðinga- og kvensjúkdómalæknir í pistli sínum „Réttindi kvenna og kynfæri þeirra“ sem birtist á Vísi.is í dag.

Engar úrbætur í augsýn

Umfjöllunarefni pistilsins er gagnrýni á flutning skimunar fyrir leghálskrabbameini til Heilsugæslunnar, sem Ebba segir eitt allsherjarklúður. Ekki glitti fyrir úrbótum í þessum efnum og enginn axli ábyrgð. Konur og læknar sem sinnt hafa þjónustunni bíði í óvissu. Konur séu ekki látnar vita af því að enn sé hægt að mæta til eigin kvensjúkdómalæknis í sýnatöku en kvensjúkdómalæknar tóku um helming sýna á meðan Leitarstöð Krabbameinsfélagsins starfaði. 

Þekking má ekki glatast

Skimanir hafa verið mikið í umræðunni undanfarið, sér í lagi eftir að skýrsla um fyrirkomulag sýnatöku var gefin út fyrr í mánuðinum. Skýrslan, og skýrsluhöfundur Haraldur Briem, hafa verið harðlega gagnrýnd af læknum. Félag rannsóknalækna og Félag íslenskra fæðinga- og kvensjúkdómalækna hafa gefið út yfirlýsingar eftir að skýrslan var birt. Ebba segir að tæki séu til hér á landi til að mæla HPV-veiruna og að þekking til að skoða frumustrok hér heima megi ekki glatast.

Þá segir Ebba að Samhæfingarmiðstöð heilsugæslunnar hafi tekið þá ákvörðun að henda sýnum sem læknar hafi tekið, þau séu dæmd óþörf. „Þarna er ekki bara verið að vanvirða konur sem koma til lækna með kvartanir og þess vegna eru tekin sýni frá leghálsi heldur er verið að gera lítið úr læknisfræðilegu mati kvensjúkdómalækna og þeim sent skammabréf,“ skrifar Ebba.

Ekki nóg að biðjast afsökunar

Hún segir þá að ekki sé nóg að Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, hafi beðist opinberlega afsökunar á töfum á svörum og viðurkennt illa undirbúinn flutning verkefnisins til heilsugæslunnar. Íslenskar konur eigi betra skilið en að karllæg kerfissjónarmið séu látin ganga fyrir heilsu kvenna.

„Við viljum að sýnin séu skoðuð hérlendis og samningnum við Dani sagt upp. Við viljum að konum landsins sé sagt satt um það hvert þær geti mætt í skoðun og kostnaðurinn fyrir þær sé sá sami. Við viljum að svörin berist hratt og skilvirkt til kvenna. Við viljum að leitarsaga kvenna sé skýr og aðgengileg. Við viljum að þeir sem sinni þessari þjónustu og hafa eftirlit með henni séu ekki beggja vegna borðsins. Við viljum að þeir sem bera ábyrgð á þessu klúðri axli ábyrgð,“ skrifar Ebba í lok pistilsins.

Hún segir ekkert mál að leysa málið sem fyrst. Það ætti að vera í forgangi hjá konunum sem gegna embættum landlæknis, heilbrigðisráðherra og forsætisráðherra. „En þá þurfa ráðandi konur að þora“

Andri Magnús Eysteinsson