Damon hefur horft á Esjuna í 20 ár en aldrei labbað upp

Mynd: Linda Brownlee / Linda Brownlee

Damon hefur horft á Esjuna í 20 ár en aldrei labbað upp

24.06.2021 - 14:40

Höfundar

Tónlistarmaðurinn Damon Albarn gaf í gær út nýtt lag sem er í raun óður til Íslands. Albarn, sem fékk nýverið íslenskan ríkisborgararétt, segist hafa gengið lengi með þann draum í maganum að safna saman tónlistarfólki heima hjá sér og reyna að gera landslaginu skil í gegnum tónlist.

Damon Albarn öðlaðist heimsfrægð með hljómsveitinni Blur á tíunda áratugnum. Þegar hljómsveitin hélt tónleika í Reykjavík heillaðist hann algjörlega af landinu og íbúum þess og hefur hann haft annan fótinn á Íslandi nær allar götur síðan. Þegar Blur tók sér smá hlé stofnaði hann hljómsveitin Gorillaz sem einnig öðlaðist heimsfrægð, og hefur í raun selt fleiri plötur á heimsvísu heldur en Blur.

Í haust kemur út ný plata Albarns, hans fyrsta síðan árið 2014. Í viðtali við Poppland á Rás 2 segir hann það alltaf jafn spennandi að gefa út ný lög, en fyrsta lagið af plötunni kom út í gær. „Þetta er allt öðruvísi núna en þegar ég byrjaði. Þá snerist þetta um einhvern „fýsískan” hlut en núna er ferlið síbreytilegt. En það er alltaf ánægjulegt að kynna það sem maður er búinn að vinna að,” segir Albarn.

Áður en vinna við plötuna hófst spurði vinur Albarns hann að því hvað það væri sem hann vildi helst gera. Svarið var að safna saman fjölda tónlistarfólks heima hjá sér í Reykjavík, þar sem þau myndu sitja fyrir framan stofugluggann hjá honum og virða fyrir sér útsýnið. Markmiðið væri svo að reyna að koma landslaginu til skila í gegnum tónlist. Áhrif Íslands eru því mikil á plötunni. „Verkefnið hófst heima hjá mér á Íslandi. Í húsinu mínu, með útsýni yfir Esjuna. Ég hef verið heillaður af því fjalli í mörg ár,” segir Albarn. Þrátt fyrir að hafa horft á Esjuna í 20 ár hefur Damon Albarn gengið upp á topp. „Ég hef gengið við rætur fjallsins en aldrei farið alla leið upp. Mér hefur margoft verið lofað gönguferðum upp á topp en það hefur aldrei orðið af því,” segir Albarn.

Hann segir tónsmíðarnar hafa byrjað snemma á morgnana og tónlistarfólkið hafi horft saman á sólarupprásina. „Þetta var töfrandi. Ég hef haft þau forréttindi að geta horft út um á síbreytilegt landslagið í 20 ár. Þannig hófst verkefnið,” segir Albarn.

Eins og með svo margt annað var verkefnið sett í mikla hættu þegar COVID-19-faraldurinn hófst og ferðatakmarkanir komu í veg fyrir að hægt væri að halda verkefninu áfram. Damon Albarn var þá staddur í Bretlandi og rak smiðshöggið á plötuna þar. „Ég gat ekki lengur unnið á Íslandi svo verkefnið tók aðeins aðra stefnu, en í grunninn byggir þetta á sama anda,” segir hann.

Damon Albarn fékk nýverið íslenskan ríkisborgararétt, hann á þó enn þá eftir að nota nýja vegabréfið. Það fær hann að gera þegar hann heldur risatónleika í Hörpu 11. mars og er að vonum afar spenntur. „Ég er mjög spenntur að nota íslenska vegabréfið mitt. Það er eitthvað sem ég hlakka til,” segir Albarn sem getur ekki beðið eftir að flytja tónlistina fyrir Íslendinga. „Þetta er hálfgert ástarbréf til Íslands.” Aðspurður um ástæðu þess að hann sótti um íslenskt ríkisfang segir Albarn að það hafi byrjað með samtölum við íslenska vini hans. Með útgöngu Breta úr Evrópusambandinu fór hann að horfa á málið af meiri alvöru. „Eftir Brexit fannst mér ég verða að halda einhvers konar tengingu við umheiminn enda er það stór hluti af því sem ég er. Svo er fjölskylda mína upprunalega frá Danmörku. Svo það er einhver skrítin forn tenging þarna líka,“ segir Albarn.

Að lokum ítrekar Albarn aftur hversu spenntur hann sé að snúa aftur til Íslands. „Ég get ekki beðið eftir að koma aftur og nota bláa vegabréfið. Ég er mjög stoltur og mun alltaf sýna þakklæti fyrir þessa dásamlegu gjöf. Bless bless.”

Nánar var rætt við Damon Albarn í Popplandi á Rás 2

 

Tengdar fréttir

Stjórnmál

Damon Albarn og 29 aðrir fá ríkisborgararétt

Stjórnmál

Damon Albarn vill fá íslenskan ríkisborgararétt