Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

99 ára grunaður um morð - elsti fangi í sögu Belgíu

24.06.2021 - 06:40
Mynd með færslu
Destelbergen er friðsæll 20.000 manna bær í Austurflandri, ekki langt frá Gent. Mynd: Limo Wreck - Wikipedia
Nær tíræður íbúi hjúkrunarheimilis í belgíska bænum Destelbergen var handtekinn á mánudagskvöld og úrskurðaður í gæsluvarðhald, grunaður um að hafa orðið öðrum íbúa heimilisins að bana. Samkvæmt belgísku fréttastofunni Belga er hinn grunaði elsti maður sem nokkru sinni hefur verið dæmdur til fangavistar þar í landi.

Morðinginn þekkti ekki fórnarlamb sitt

Lítið kemur fram um málsatvik í tilkynningu saksóknaraembættisins í Gent, sem fer með málið. Belga hefur þó heimildir fyrir því að hinn grunaði, sem sagður er 99 ára gamall, hafi kæft 75 ára gamlan íbúa sama heimilis með kodda.

Ekkert er vitað um hvatirnar að baki morðinu og hefur Belga eftir fólki sem til þekkir að líkast til hafi hinn grunaði valið fórnarlamb sitt af handahófi. Ekki er talið að mennirnir hafi þekkst, þar sem þeir bjuggu hvor á sinni deild hjúkrunarheimilisins og hinn grunaði banamaður tiltölulega nýfluttur þar inn.

Aðrir íbúar og starfsfólk hjúkrunarheimilisins hafa fengið áfallahjálp, að sögn Elsie Sierens, bæjarstjóra í Destelbergen. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV