Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Útlendingastofnun tjáir sig ekki um úrskurð kærunefndar

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Forsvarsmenn Útlendingastofnunar telja ekki tilefni til að tjá sig um niðurstöðu Kærunefndar útlendingamála í málum tveggja palestínskra hælisleitenda. Nefndin komst í síðustu viku að þeirri niðurstöðu að stofnunin hafi ekki haft lagaheimild til að vísa hópi palestínskra hælisleitanda á götuna og svipta þá fæðispeningum.

 

Hluti hópsins án framfærslu og húsnæði í mánuð

Mönnunum var synjað um vernd og í kjölfarið neituðu þeir að gangast undir COVID-próf, slíkt próf er í dag forsenda þess að það megi snúa þeim aftur til Grikklands. Mennirnir voru algerlega upp á aðra komnir og hluti hópsins var án húsnæðis- og fæðispeninga í mánuð. 

Sjá einnig: Segir Palestínumennina hafa átt val

Magnús Norðdahl, lögmaður eins hælisleitendanna, furðaði sig á því í samtali við fréttastofu í gær að enginn frá Útlendingastofnun hefði axlað ábyrgð á málinu eða beðist afsökunar. Hann telur mennina eiga rétt á skaða- og miskabótum. Upplýsingafulltrúi Útlendingastofnunar sagði í samtali við fréttastofu í dag að stofnunin teldi ekki tilefni til að tjá sig frekar vegna málsins. 

Leit svo á að ákvörðunin væri komin til framkvæmdar

Í skriflegu svari Útlendingastofnunar segir að stofnunin hafi túlkað ákvæði í reglugerð um útlendinga með öðrum hætti en kærunefndin. Útlendingastofnun hafi litið svo á að ákvörðun um brottvísun væri komin til framkvæmdar þó mennirnir væru enn á landinu. Fram kemur að stofnunin hafi nú boðið mönnunum þjónustu á ný og þeir fái aftur fæðis- og framfærslufé. 

Í úrskurði kærunefndarinnar segir að Útlendingastofnun hafi ekki litið svo á að ákvörðunin um að svipta mennina þjónustu teldist stjórnvaldsákvörðun, hún væri því ekki kæranleg til kærunefndarinnar. Þessu var nefndin ekki sammála.

Ákvæði óskýr og ekki lagastoð

Í úrskurðinum segir að í íslenskum rétti gildi sú meginregla að stjórnvöld geti aðeins tekið íþyngjandi ákvörðun um skerðingu rétinda borgaranna hafi þau til þess skýra og ótvíræða heimild. Í ljósi sjónarmiða kæranda og orðalags laga og reglugerðar um útlendinga fái nefndin ekki séð að Útlendingastofnun hafi heimild lögum sem skjóti stoðum undir ákvörðunina. Þá sagði nefndin ekki nógu skýrt í reglugerðinni hvenær og við hvaða skilyrði þjónusta við umsækjendur um alþjóðlega vernd fellur niður. 

Pattstaða

Það er á ábyrgð stoðdeildar ríkislögreglustjóra að flytja mennina úr landi en á meðan þeir neita að gangast undir COVID-próf og grísk stjórnvöld gera áfram kröfu um að allir sem þangað koma framvísi niðurstöðu slíks prófs ríkir pattstaða í málinu. Ekki hefur náðst í Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, dómsmálaráðherra, vegna málsins í dag.