Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

UEFA var í dauðafæri að gera jákvæða hluti

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

UEFA var í dauðafæri að gera jákvæða hluti

23.06.2021 - 13:59
Neitun knattspyrnusambands UEFA á ósk borgaryfirvalda í München að lýsa Allianz Arena-leikvanginn í regnbogalitum veldur hneysklan margra.

Klara Bjartmarz framkvæmdastjóri Knattspyrnusambands Íslands á sæti í  nefnd á vegum Knattspyrnusambands Evrópu, UEFA, um samfélagslega ábyrgð. Hún hefur óskað eftir gögnum en segir að við fyrstu sýn líti málið illa út.

Knattspyrnuhreyfingin tók undir baráttuna gegn lögregluofbeldi í kjölfar morðsins á George Floyd í Minneapolis í Bandaríkjunum í maí í fyrra. Fyrir fótboltaleiki krupu leikmenn og dómarar og lögðu því sitt lóð á vogarskálarnar. Klara segir tíðarandann vera að breytast en hve hratt hann gerir það sé umdeilanlegt.

Klara hélt erindi í vor á vegum samtakanna FARE sem berjast gegn mismunun í fótbolta. Fulltrúar frá enska knattspyrnusambandinu og alþjóðasambandinu FIFA ræddu meðal annars um „hómófóbíu“ í íþróttum. „Það er löng leið í mark þar, ákaflega löng. Ég held að UEFA hafi verið í dauðafæri að gera jákvæða hluti,“ segir Klara. Hún freistar þess að afla nánari upplýsinga frá UEFA.