Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Þrjú víti og heilmikil dramatík í dauðariðlinum

epa09297255 Kai Havertz (C) of Germany scores the 1-1 during the UEFA EURO 2020 group F preliminary round soccer match between Germany and Hungary in Munich, Germany, 23 June 2021.  EPA-EFE/Matthias Schrader / POOL (RESTRICTIONS: For editorial news reporting purposes only. Images must appear as still images and must not emulate match action video footage. Photographs published in online publications shall have an interval of at least 20 seconds between the posting.)
 Mynd: EPA-EFE - AP POOL

Þrjú víti og heilmikil dramatík í dauðariðlinum

23.06.2021 - 21:01
Það var boðið upp á þrjár vítaspyrnur og helling af dramatík þegar lokaleikir riðlakeppni EM fóru fram í kvöld. Minnstu munaði að Þjóðverjar dyttu úr leik en mark á 86. mínútu kom þeim áfram í 16-liða úrslitin.

Spennan var mikil í F-riðli fyrir leiki kvöldsins. En riðillinn er talinn sá sterkasti á EM. Fyrir leiki kvöldsins var aðeins Frakkland þegar komið áfram og Portúgal, Þýskaland og Ungverjaland áttu öll möguleika á að fylgja þeim upp úr riðlinum. 

Það var hellidemba í Munchen þar sem heimamenn í Þýskalandi tóku á móti Ungverjalandi. Þjóðverjar byrjuðu leikinn betur og það var því þvert gegn gangi leiksins að Ungverjar tóku forystuna strax á 11. mínútu. Leikmenn Þýskalands gleymdu sér þá í vörninni og gáfu Rolland Salai mikið pláss til að finna Adam Szalai inn í teig Þjóðverja. Szalai skoraði svo með frábærum skalla og staðan því 0-1 fyrir Ungverjaland. Miðað við þessi úrslit færu Ungverjar áfram á kostnað Þjóðverja. 

Þjóðverum var verulega brugðið við markið og en smátt og smátt jókst sóknarþungi þeirra á meðan að Ungverjar lágu til baka og gáfu fá færi á sér. Staðan var því óbreytt í hálfleik. Sókn Þjóðverja hélt áfram í seinni hálfleik en liðið gerði þó mörk klaufaleg mistök og þeim gekk illa ða finna glufur á vörn Ungverjalands. Á 66. mínútu kom svo langþráð jöfnunarmark hjá Þýskalandi. Peter Gulacsi, markvörður Ungverjalands, fór í algjört skógarhlaup eftir aukaspyrnu. Mats Hummels skallaði boltann í átt að Kai Havertz sem skallaði auðveldlega í autt markið. 

Þýskir áhorfendur voru enn að fagna jöfnunarmarkinu þegar Ungverjar tóku miðju og brunuðu upp völlinn. Sú sókn endaði með stungusendingu inn á Andras Schafer sem var á undan Neuer í boltann og hann kom því Ungverjalandi aftur yfir. 

Örvænting Þjóðverja jókst eftir því sem mínúturnar liðu og þjálfari þeirra, Joachim Low, lagði allt kapp á sóknarleikinn síðustu mínúturnar. Það skilaði árangri þegar sex mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma. Boltinn barst þá til Leon Goretzka í teignum og hann skoraði með góðu skoti og staðan því 2-2. Þjóðverjum því bjargað í bili og nú voru það Ungverjar sem voru á heimleið. 

Þetta reyndust lokatölur leiksins og Þýskaland fer því áfram í 16-liða úrslitin þar sem þeir mæta Englandi. 

Þrjú víti og markamet

Á sama tíma og Ungverjar spiluðu í Þýskalandi mættust Portúgal og Frakkland á þjóðarleikvanginum í Búdapest í Ungverjalandi. Leikurinn fór nokkuð rólega af stað en eftir um það bil 30 mínútna leik fékk Portúgal víti. Hugo Lloris, markvörður Frakklands, ætlaði þá að kýla boltann í burtu eftir aukaspyrnu en það heppnaðist ekki betur en svo að hann kýldi Danilo, leikmann Portúgals, í andlitið. Cristiano Ronaldo þurfti að bíða í nokkrar mínútur með að taka vítið á meðan Danilo hlaut aðhlynningu á vellinum. Þegar Ronaldo tók loks vítið var það öruggt og Portúgal komið yfir. Fjórða mark Ronaldo í keppninni og 108 landsliðsmark hans. Ronaldo er nú aðeins einu marki frá því að jafna met Ali Daei sem skoraði 109 mörk fyrir Íran.

Undir lok fyrri hálfleiks var aftur dæmt víti en nú á Portúgal. Kylian Mbappe virtist þá hlaupa á Nelson Semedo og féll við litlar sakir. Myndbandsdómari staðfesti svo vítaspyrnudóminn og Karim Benzema skoraði örugglega úr vítinu og jafnaði leikinn. Fyrsta mark Benzema fyrir franska landsliðið í tæp sex ár. 

Benzema var aftur á ferðinni í upphafi seinni hálfleiks þegar hann fékk stungusendingu frá Paul Pogba. Benzema renndi boltanum framhjá Rui Patricio í markinu en aðstoðardómarinn flaggaði rangstöðu. Eftir að markið var skoðað af myndbandsdómara var það dæmt gott og gilt og Frakkland því komið 2-1 yfir. Eins og staðan var í leikjunum á þessum tímapunkti var lið Evrópumeistara Portúgals í fjórða sæti riðilsins og færi því ekki áfram. 

En eftir klukkutíma leik var komið að þriðju vítaspyrnu leiksins. Ronaldo átti þá fyrirgjöf sem fór í hönd Jules Kounde og ekkert annað í stöðunni en að dæma víti. Ronaldo fór aftur á punktinn og skoraði örugglega. Staðan í leiknum því 2-2 og Þjóðverjar aftur á leiðinni heim. Mark Ronaldo var hans 109. fyrir landsliðið og hann því jafn Ali Daei yfir flest landsliðsmörk. 

Skömmu eftir jöfnunarmark Portúgals átti Paul Pogba gott skot fyrir utan teig sem Rui Patricio varði vel, hann varði einnig vel þegar að Antoine Griezman fylgdi á eftir. Afar mikilvægar markvörslur þar sem mark frá Frakklandi myndi senda Portúgal heim. 

Frakkar vildu fá víti í uppbótartíma þegar Bruno Fernandes braut á Kingsley Coman en Portúgalar sluppu með skrekkinn þar sem ekkert var dæmt. Niðurstaðan því 2-2 jafntefli og báðar þjóðir komnar áfram í 16-liða úrslit.