Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Fordæma umdeilda lagasetningu í Ungverjalandi

Mynd: EPA-EFE / EPA
Knattspyrnusamband Evrópu hefur sætt gagnrýni fyrir að banna borgaryfirvöldum í München að lýsa upp leikvang í regnbogalitunum í tilefni viðureignar Þýskalands og Ungverjalands í Evrópumótinu. Angela Merkel og Ursula Von Der Leyen eru á meðal þeirra sem fordæma lagasetningu í Ungverjalandi sem þrengir að réttindum hinsegin fólks.

Lögin umdeildu voru samþykkt í síðustu viku. Þau banna samkynhneigðum að koma fram í barnaefni eða við sögu í kennsluefni fyrir börn yngri en 18 ára. Angela Merkel, kanslari Þýskalands, fordæmdi lagasetninguna í dag. „Að mínu mati eru lögin röng og þau samrýmast ekki hugmyndum mínum um pólitík. Ef samkynhneigð, samkynja sambönd eru leyfð en upplýsingar um þau eru bannaðar annars staðar erum við komin inn á svið frelsis til menntunar. Ég hafna þessu í pólitískum skilningi,“ sagði Merkel í dag. 

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, segir lögin til skammar. „Þetta frumvarp er skýr mismunun gegn fólki 8 á grundvelli kynhneigðar þess og það gengur gegn öllum grundvallargildum Evrópusambandsins.“

Vísa gagnrýni á bug

Stjórnvöld í Ungverjalandi segja gagnrýnina út í hött.  „Í lögunum segir eingöngu að meðan börn eru yngri en 18 ára er menntun þeirra um kynhneigð alfarið í höndum foreldranna.  Ekkert annað,“ segir Peter Szijjarto, utanríkisráðherra Ungverjalands.

Og málið hefur teygt anga sína inn á fótboltavöllinn. Forsætisráðherrann Victor Orban aflýsti ferð sinni til Þýskalands á leik Ungverja gegn Þjóðverjum í Evrópumótinu sem hófst klukkan sjö í kvöld. Leikurinn er í München og borgarstjórinn vildi láta lýsa leikvöllinn í regnbogalitunum til stuðnings við hinsegin fólk. Knattspyrnusamband Evrópu bannaði það á þeim forsendum að pólitísk deilumál ættu ekki erindi í keppnina. 

Margaritis Schinas, varaforseti framkvæmdastjórnar ESB, vandaði UEFA ekki kveðjurnar á blaðamannafundi í dag. „Ég sé hreinlega ekkert sem réttlætir þetta. UEFA stóð með okkur í alls kyns herferðum fyrir þátttöku allra, gegn rasisma og hjálpaði okkur með bólusetningu. Sambandið studdi öll góðu málefnin en gerir allt í einu vesen núna.“