Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Britney Spears rýfur þögnina: „Ég er ekki hamingjusöm“

23.06.2021 - 23:05
Mynd: EPA-EFE / EPA
Bandaríska tónlistarkonan Britney Spears vill fá aftur sjálfræði. Þetta kom fram í máli hennar þegar hún gaf skýrslu fyrir dómi í Los Angeles í kvöld. Hún var svipt sjálfræði árið 2008 og reynir nú að losna undan forsjá föður síns. Þetta er í fyrsta sinn í þrettán ár sem hún tjáir sig um málið í eigin persónu.

Britney Spears er 39 ára og fyrir löngu orðin goðsögn í poppheiminum. Hún var ekki orðin 17 ára þegar hún skaust snögglega upp á stjörnuhimininn og fljótlega átti hún lítið sem ekkert einkalíf. Árum saman var hún elt af ljósmyndurum um hvert fótmál og 2007 var hún orðin mjög veik og var nauðungarvistuð á geðdeild. Hún missti forræðið yfir tveimur börnum sínum ári síðar og var svipt sjálfræði. Faðir hennar Jamie Spears var skipaður lögráðamaður hennar en steig til hliðar sem slíkur tímabundið 2019 og í ágúst í fyrra óskaði Britney formlega eftir því að hann verði ekki gerður lögráðamaður hennar á ný. 

Samkvæmt leynilegum dómsskjölum sem New York Times komst yfir hefur Britney viljað binda endi á þetta fyrirkomulag árum saman. Frá 2014 hefur viljað losna við föður sinn sem lögráðamann. Þetta rennir stoðum undir kenningu þeirra sem standa að #freeBritney-hreyfingunni. Fjöldamargir aðdáendur hennar standa í þeirri trú að Britney sé í raun haldið nauðugri - hún sé fangi föður síns. 

Gaf skýrslu í rúmar 20 mínútur

Hún er virk á samfélagsmiðlum og svarar þar spurningum aðdáenda - nema þeim algengustu sem snúa að hennar persónulegu högum. Hópur fólks safnaðist saman við dómstólinn í Los Angeles í dag og krafðist þess að Britney verði frelsuð. Hún óskaði sjálf eftir því að taka til máls fyrir dómstólum og bað sérstaklega um að vitnisburður sinn yrði opinn öllum. Þar lýsti Britney reiði og gremju yfir fyrirkomulaginu. Hún sagðist hafa tjáð heiminum að hún sé ánægð og líði vel, það sé hún hins vegar alls ekki. „Ég er í áfalli. Ég er ekki hamingjusöm. Ég get ekki sofið.“

Mynd með færslu
 Mynd: EPA
Britney Spears er ein frægasta söngkona heims.

Hún gaf skýrslu í gegnum fjarfundarbúnað og talaði í rúmar 20 mínútur. Britney sagðist vilja binda endi á þetta fyrirkomulag og fá sjálfræði aftur. Eignir hennar eru metnar á 60 milljón dollara eða ríflega 7,3 milljarða íslenskra króna. Söngkonan hefur ekki setið auðum höndum frá því hún var svipt sjálfræði. Frá 2008 hefur hún sinnt ótal verkefnum. Einnig hefur hún gefið út fjórar plötur,  verið dómari í X-Factor og haldið úti afar vinsælli sýningu í Las Vegas.  Sagan segir að Britney fái um sjötíu milljónir króna fyrir hverja sýningu.

Bannað að eignast börn

Fram kom í máli hennar í kvöld að hún hafi verið neydd til að taka lyf. Hún sagðist vilja endurheimta líf sitt. „Mig langar gifta mig og eignast barn. Mér var sagt að ég gæti ekki gengið í hjónaband,“ sagði Britney. Hún lýsti því að hún væri á getnaðarvörninni lykkjunni. Henni er komið fyrir inn í leginu og sagði Britney að henni væri meinað að losa sig við hana. „Þetta fyrirkomulag veldur mér mun meiri skaða en það gerir mér gott.“

Britney Spears á kærasta að nafni Sam Asghari. Fyrir réttarhöldin birti hann mynd af sér á Instagram þar sem hann klæddist bol sem á stóð: „frelsið Britney.“ Að sögn hennar má hún ekki fara með honum í bíltúr án eftirlits. „Ég á skilið sömu réttindi og aðrir, að eiga barn og allt hitt,“ sagði Britney í lokin. 

Næstu réttarhöld í málinu fara fram í næsta mánuði. 

epa09297666 Hundreds of demonstrators rally during a #FREEBRITNEY protest in front of the court house where Britney Spears addresses the court in conservatorship hearing in Los Angeles, California, USA, 23 June 2021.  EPA-EFE/ETIENNE LAURENT
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Fjöldi fólks sýndi Britney stuðning í kvöld.