Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Almenningur ekki fengið rétt verð fyrir bankann

Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Forsætisráðherra segir hlutafjárútboð Íslandsbanka vel heppnað og að mikill áhugi fjárfesta hafi aukið verðmæti eignarhlutar ríkisins í bankanum. Formenn stjórnarandstöðuflokka segja útboðsgengið hafa verið of lágt og harma að erlendir vogunarsjóðir séu aftur komnir inn í bankakerfið.

35 prósenta hlutur ríkisins í Íslandsbanka var seldur á dögunum og var endanlegt útboðsgengi 79 krónur á hvern hlut.

Viðskipti hófust með bréf í bankanum í gær og rauk þá gengi bréfanna upp. Við lokun markaða í dag var hluturinn kominn upp í 99 krónur, eða 25 prósent hærra en útboðsgengi.

Forsætisráðherra segir að markmiðið með sölunni hafi verið að draga úr eignarhaldi ríkisins á bönkunum og draga þar með úr áhættu. Það hafi tekist og mikil eftirspurn eftir bréfum í bankanum hafi aukið verðmæti eftirstandandi eignarhlutar um 20 milljarða króna. Þá eigi ríkið enn 65 prósenta hlut í bankanum.

Selt á of lágu verði

Formenn Samfylkingar og Miðflokksins eru sammála um að selt hafi verið á of lágu verði, en fyrir seljandinn, íslenska ríkið, hafði sett verðbilið 71-79 krónur á hlut.

„Þessi skarpa hækkun á hlutabréfum, um 20 prósent strax eftir útboð, bendir til þess að almenningur sem á bankann hafi ekki fengið rétt fyrir hann,“ segir Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, tekur í sama streng. Hann segir mikla umframeftirspurn í útboðinu til marks um að verð hefði mátt vera hærra. „Það má færa rök fyrir því að þetta hafi verið frekar lágt verð.“