Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Opinn fyrir rafskútubanni um helgar

22.06.2021 - 14:43
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hugmyndir um að leyfa ekki leigu á rafskútum á föstudags- og laugardagskvöldum er mjög áhugaverð segir aðstoðaryfirlögregluþjónn í Reykjavík. Þar með minnki líkur á ölvunarakstri.

Fordæmi frá Dönum og Svíum

Guðbrandur Sigurðsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn í umferðardeild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir að hugmyndin um að banna rafskútuleigu á helgarkvöldum sé áhugaverð. Þetta sé gert sums staðar í Danmörku og Svíþjóð til að koma í veg fyrir ölvunar- og hraðakstur.

Hugmyndinni er varpað fram í nýrri skýrslu um rafskútur og umferðaröryggi sem VSÓ ráðgjöf gerði fyrir Reykjavíkurborg og Vegagerðina. Hann segir að rafskútur séu komnar til að vera og að yfirvöld og almenningur verði að aðlagast og venjast nýjum veruleika. Núna blasi vandi við.

Nýtir sér leigurnar undir áhrfum

„Svona við fyrstu sýn er vandinn sá að fólk fer ekki nógu vel að reglum og fer ekki nógu gætilega" segir Guðbrandur. „Það eru fjölmörg dæmi um það að fólki aki rafmagnshlaupahjólum á götu eða vegi sem ekki er heimilt heldur mega bara vera á gangstétt eða gangstígum. Og svo sé fólk að nýta sér slíkar leigur á kvöldin og á nóttinni þegar það er undir talsverðum áhrifum áfengis".

Endar illa að aka drukkin

Hvað er til ráða?

„Fræðsla og forvarnir" segir Guðbrandur og bætir við: „Brýna fyrir fólki reglurnar. Dæmin sýna að ef ekki er farið gætilega eða ef farið er á svona tækjum undir áfengisáhrifum eða annarra vímuefna þá endar það illa".

Hvernig líst þér á þá hugmynd að banna að leigja þessi tæki út á föstudags- og laugardalskvöldum?

„Mér finnst það mjög áhugaverð tillaga. Við þekkjum dæmi frá Norðurlandaþjóðum, sem við miðum okkur oft við, Dani og Svía.  Seint á kvöldin og á nóttunni, sérstaklega um helgar, þá er sumstaðar ekki hægt að leigja þessi hjól.  Svo eru þau forrituð þannig að þegar þú kemur inn á viss svæði þá kemstu ekki yfir gönguhraða. Þá er ég að hugsa um miðbæinn og göngugötur" segir Guðbrandur Sigurðsson.

kristjas's picture
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV