Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Keflavík með öruggan sigur í þriðja leik

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Keflavík með öruggan sigur í þriðja leik

22.06.2021 - 21:59
Keflavík vann öruggan sigur á Þór Þorlákshöfn í kvöld í þriðja leik liðanna um Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta. Keflavík var betra liðið allt frá fyrstu mínútu og gestirnir virtust aldrei líklegir til að ógna heimamönnum í kvöld. Að lokum munaði 14 stigum á liðunum, 97-83.

Það var spenna í loftinu þegar Keflavík tók á móti Þór Þorlákshöfn í þriðja leik liðanna um Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta í kvöld. Þórsarar höfðu unnið fyrstu tvö leikina og gátu því tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn með sigri í kvöld. Stuðningsmannasveitir beggja liða fjölmenntu á leikinn og það var því gríðarleg stemning þegar leikurinn hófst.

Heimamenn mættu mun ákveðnari og ætluðu augljóslega að koma í veg fyrir fagnaðarhöld Þórsara. Keflavík komst í 6-0 í upphafi leiks og lét forystuna aldrei af hendi. Keflavík hélt áfram að auka forskot sitt og eftir fyrsta leikhluta var staðan 23-15 Keflavík í vil. Heimamenn héldu þessari forystu nær alveg fram að hálfleik en munurinn var mestur 13 stig. Gestirnir frá Þorlákshöfn náðu að skora tvö síðustu stig fyrri hálfleiks og staðan í hálfleik var 47-38. 

Keflavík hélt forystunni áfram í seinni hálfleik. Leikmenn liðsins börðust um hvern einasta bolta og hirtu hvert frákastið á fætur öðru. Staðan fyrir fjórða og loka leikhlutann var 67-56 fyrir Keflavík. Í fjórða leikhluti var aldrei spurning hvort liðið myndi vinna. Það gekk allt upp hjá Keflavík og á sama tíma voru leikmenn Þórs að gera klaufaleg mistök. Þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum var staðan orðin 79-63 fyrir Keflavík. Heimamenn léku á alls oddi undir lokin og unnu 14 stiga sigur, 97-83.

Sigur heimamanna þýðir að staðan í einvíginu er 2-1 fyrir Þór og liðin mætast því í fjórða sinn á föstudaginn í Þorlákshöfn. Sigur heimamanna þar þýðir að Þór Þorlákshöfn verða meistarar en ef Keflavík vinnur mætast liðin í oddaleik.