Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Íhugaði að hætta eftir fyrstu vaktina á bráðamóttökunni

Mynd: Félag læknanema / Félag læknanema
Tíu læknanemar sem starfa í sumarafleysingum á bráðamóttöku Landspítala lýsa þungum áhyggjum af undirmönnun sérfræðinga á deildinni í opnu bréfi til framkvæmdastjórnar spítalans í dag. Þau vilja að strax verði gerðar ráðstafanir til að tryggja fullnægjandi mönnun sérfræðinga á bráðamóttökunni.

Landlæknir sagði fyrr í mánuðinum að staðan í mönnun bráðalækna hafi aldrei verið verri. Sumarleyfi eru gengin í garð og manneklan hefur aldrei verið meiri á deildinni.

30 prósentum undir neyðarmönnun

„Við höfum fyrst og fremst áhyggjur af öryggi sjúklinga. Mönnun sérfræðilækna á bráðamóttöku er núna 30% undir neyðarmönnun sem þýðir þá að hún er 30% undir verkfallsmönnum.

Þetta þýðir að sérfræðingarnir á bráðamóttöku sem eru okkar reyndustu læknar geta ekki séð alla sjúklinga. Þess vegna verða þeir að treysta á óreyndari lækna og læknanema til að meta sjúklinga í þeirra stað,“ segir Teitur Ari Theodórsson, formaður félags læknanema. Hann er einn þeirra tíu nema sem hafa lokið fimmta ári læknisfræði og starfa á bráðamóttökunni í sumar. 

„Það er svo á þessu mati sem framtíðarrannsóknir og afdrif sjúklinganna miða. Þess vegna erum við í mikilli ábyrgðarstöðu að komast í rauninni að réttu mati á þessum sjúklingum.“

Einn sérfræðilæknir er ábyrgur fyrir öllum sjúklingum á bráðadeild á jarðhæð og einn á slysadeild. „Þetta lýsir sér þannig að það er yfirleitt biðröð að sérfræðingnum og [...] í stað þess að hann berji sjálfur sjúklinga augum og átti sig á því hvort þarna séu virkileg veikindi á ferð, eitthvað til að hafa áhyggjur af, þá þarf hann að útvista þessu áliti sem er afrakstur áralangrar reynslu til óreyndari lækna og við höldum að það bjóði upp á mistök.“

Býður hættunni heim

„Ég ætlaði að hætta eftir mína fyrstu vakt, en ég hugsaði: ef ég hætti þá er bara meira álag á hina,“ segir hann um fyrstu vakt sumarsins á bráðamóttökunni.

„Okkur finnst að þegar mönnunin er með þessum hætti og þegar sérfræðingar þurfa að treysta í auknum mæli á okkar mat á sjúklingum, að það bjóði hættunni heim og við teljum þetta alvarlega stöðu. 

Ég held að flestir sem fara út í læknisfræði eða aðrar heilbrigðisstéttir geri það til þess að hjálpa fólki og það er ótrúlega óþægileg tilfinning þegar þér líður eins og ytri starfsaðstæður séu þannig að þú getur í rauninni ekki uppfyllt það markmið. Það er þess vegna sem við skrifum þetta bréf og biðlum til framkvæmdastjórnar Landspítala og skorum á þau að bæta úr þessari mönnun sérfræðinga á bráðamóttöku Landspítalans,“ segir Teitur.