Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

England með þægilegan sigur - Skotar úr leik

epa09294101 Raheem Sterling (2-R) of England celebrates with teammates after scoring the 1-0 lead during the UEFA EURO 2020 group D preliminary round soccer match between the Czech Republic and England in London, Britain, 22 June 2021.  EPA-EFE/Neil Hall / POOL (RESTRICTIONS: For editorial news reporting purposes only. Images must appear as still images and must not emulate match action video footage. Photographs published in online publications shall have an interval of at least 20 seconds between the posting.)
 Mynd: EPA-EFE - EPA POOL

England með þægilegan sigur - Skotar úr leik

22.06.2021 - 20:53
England, Króatía og Tékkland eru öll komin áfram í 16-liða úrslitin á EM eftir leiki kvöldsins. England vann góðan sigur á Tékklandi á heimavelli sínum og á sama tíma vann Króatía þægilegan sigur á Skotlandi í Glasgow. Skotland er því eina liðið í D-riðli sem situr eftir með sárt ennið.

Fyrr í dag var greint frá því að Ben Chilwell og Mason Mount yrðu ekki með Englandi í dag þar sem þeir voru í sóttkví. Það vakti athygli að Bukayo Saka var í byrjunarliði Englands í dag og þá kom Jack Grealish einnig inn í byrjunarliðið. Fyrsta færi leiksins kom strax á 2. mínútu þegar Raheem Sterling lyfti boltanum yfir markvörð Tékka en boltinn hafnaði í utanverðri stöngini. Tíu mínútum síðar náði Sterling svo að skora, Grealish átti þó góða sendingu á fjærstöng þar sem Sterling kom boltanum í netið. 

Bæði lið fengu ágætis tækifæri til að skora en mörkin urðu ekki fleiri í fyrri hálfleik. Bæði lið gerðu breytingar í hálfleik. Hjá Englandi kom Jordan Henderson inn fyrir Declan Rice og hjá Tékkum fór Jakub Jankto af velli og inn á í hans stað kom Petr Sevcik. Seinni hálfleikur var nokkuð tíðindalítill en rétt undir lokin leit allt út fyrir að Jordan Henderson hefði skorað sitt fyrsta landsliðsmark en eftir nánari skoðun var markið dæmt af vegna rangstöðu. Leikurinn endaði því með 1-0 sigri Englands og liðið endar því í efsta sæti riðilsins. Tékkland er einnig komið áfram í 16-liða úrslit þrátt fyrir að enda í þriðja sæti í riðlinum. 

Skotar sitja eftir með sárt ennið

Í Glasgow tóku Skotar á móti Króötum og bæði lið þurftu á sigri að halda til að komast áfram í 16-liða úrslitin. Gestirnir byrjuðu betur og á 17. mínútu kom Nikola Vlasic þeim yfir. Rétt fyrir hálfleik jafnaði svo Callum McGregor leikinn fyrir Skota og staðan því 1-1 í hálfleik. Þau úrslit hefðu þýtt að hvorugu liðinu tækist að komast upp úr riðlinum. Króatía gerði hins vegar út um leikinn í seinni hálfleik. Fyrst með marki frá Luka Modric og svo frá Ivan Perisic og staðan því orðin 3-1 og Króatía. Það reyndust vera lokatölur leiksins og Króatía endar því í öðru sæti riðilsins og er komið áfram í 16-liða úrslitin.