Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Dæmdur í 4 ára fangelsi fyrir brot gegn dóttur sinni

22.06.2021 - 15:50
Mynd með færslu
Lögreglan á Spáni birti þessa mynd af handtöku mannsins í október. Mynd: La Policía Nacional
Dómstóll í Svendborg á Fjóni í Danmörku dæmdi í dag íslenskan karlmann í fjögurra ára fangelsi fyrir ítrekuð kynferðisbrot gegn dóttur sinni. Brotin framdi maðurinn þegar dóttir hans var fimm ára og þar til hún varð níu ára. Honum verður vísað úr landi og fær ekki að snúa aftur til Danmerkur. Maðurinn neitar sök og hefur þegar áfrýjað dómnum til æðra dómstigs.

Þetta kemur fram á vef Eksta Bladet.  Maðurinn, sem er 51 árs, var handtekinn í spænska bænum Alicante í október og framseldur til Danmerkur hálfum mánuði seinna. 

Brotin framdi maðurinn á árunum 2006 til 2010, bæði á Íslandi en líka í sumarhúsi á Fjóni. Dóttirin hefur ekki séð föður sinn í ellefu ár, að því er fram kemur á vef Ekstrablaðsins.

Málið kom inn á borð lögreglunni á Fjóni fyrir þremur árum.  Maðurinn var úrskurðaður í gæsluvarðhald í júní á síðasta ári þrátt fyrir að hann væri ekki til staðar. 

Jacob Thaarup, saksóknari í málinu, segir í samtali við Ekstrablaðið að málið sé mjög óvenjulegt. Til að mynda hafi dóttirin trúað tveimur vinkonum sínum fyrir brotum föður síns og það hafi ráðið úrslitum um að hægt var að sækja manninn til saka. 

Þá hafi ofbeldið sem hann beitti verið mjög gróft, hann hafi meðal annars sparkað í dóttur sína og slegið með kökukefli.