Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Brýnt að byggja upp Þrengslin lokist Suðurstrandarvegur

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd - RÚV
Lokun Suðurstrandarvegar vegna eldgossins á Reykjanesskaga reynir fyrst og fremst á samgönguyfirvöld í landinu segir bæjarstjórinn i Ölfusi. Huga þarf að uppbyggingu Þrengslavegar til að tryggja þungaflutninga.

Víðtæk efnhagsleg og menningarleg áhrif

Líkleg lokun Suðurstrandarvegar vegna hraunrennslis úr Geldingadölum hefði talsverð áhrif á efnahags- og menningarleg samskipti íbúa á Suðurnesjum og í Ölfusi, segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss. Samgönguyfirvöld þyrftu að huga vel að frekari uppbyggingu Þrengslavegar.

Eitt og sama atvinnusvæðið

Elliði segir að útflutningshöfnin fyrir þetta svæði sé í Þorlákshöfn og hún sé mikið notuð. „Þannig að það eru víða beinir viðskiptalegir hagsmunir. En svo eru það líka þessi kúltúrísku áhrif. Þetta er eitt og sama atvinnusvæðið. Fólk býr á öðrum staðnum og vinnur á hinum. Fólk býr á einum stað og spilar íþróttir annars staðar og þar fram eftir götunum. Þannig að þetta hefur víðtæk áhrif" segir Elliði.  

Reynir fyrst og fremst á samgönguyfirvöld

Er sveitarstjórnarfólk eða forsvarsmenn fyrirtækja farið að huga að því hvernig eigi að bregðast við?
„Nei við höfum svo sem ekki mörg vopn í höndunum til að bregðast við. Þetta eru náttúruhamfarir og áhrif mannsins á þær eru hverfandi lítil þannig að við getum svo sem ekki haft bein áhrif á atburðarásina. En þetta kemur til með að reyna fyrst og fremst á samgönguyfirvöld í landinu.

Ef að svo fer að Suðurstrandarvegurinn lokar þá aukast þungaflutningar og aðrar flutningar um aðrar leiðir, svo sem Þrengslin, og það þarf að huga að uppbyggingu á þeim vegi fyrr en seinna" segir Elliði Vignisson.       

Talsverð áhrif á fiskflutninga Smyril Line

Linda Björk Gunn­laugs­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri Smyr­il Line á Íslandi, segir  að lokun Suðurstrandarvegar hefði talsverð áhrif á flutninga fyrirtækisins frá Suðurnesjum.  Fyrirtækið flytur meðal annars fisk frá Grindavík og öðrum plássum í skip í Þorlákshöfn um Suðurstrandarveg. Fari svo að Suðurstrandarvegurinn lokist færðist  allur fiskflutningurinn af Suðurnesjum á Reykjanesbraut og Þrengsli.