Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Ítrekað reynt að komast inn í fatagáma Rauða krossins

21.06.2021 - 20:00
Mynd: RÚV / Skjáskot
Nokkuð er um að fólk reyni að komast inn í fatasöfnunargáma Rauða krossins og taka úr þeim föt og ítrekaðar skemmdir eru unnar á þeim. Til stendur að skipta út hluta þeirra fyrir gáma sem erfiðara er að komast inn í.  Um helgina voru fatasöfnunarbílar Rauða krossins skemmdir og föt tekin úr þeim.     

Rauði krossinn rekur um 120 fatasöfnunargáma víða um land. Í síðustu viku festist kona í einum þeirra í Breiðholti, en komst af sjálfsdáðum út. Um helgina var brotist inn í tvo fatasöfnunarbíla Rauða krossins, þeir skemmdir og föt tekin úr þeim. Þetta var í annað skiptið á stuttum tíma sem brotist var inn í bílana.

„Það hefur verið að aukast að fólk sé með einhverjum hætti að reyna að ná út úr gámunum hvort sem það er með því að spenna þá upp eða reyna að krækja í hluti sem í þeim eru,“ segir Gunnlaugur Bragi Björnsson upplýsingafulltrúi Rauða krossins. 

Hann segir að orðið hafi vart við að sumir séu einfaldlega að reyna að ná sér í fatnað. Í slíkum tilvikum sé fólki boðin aðstoð Rauða krossins og reynt að finna lausn á málum. „Við viljum að fólk setji sig í samband við okkur ef það er í raunverulegri þörf fyrir föt.“

Hvernig verðið þið vör við að fólk sé að reyna að komast inn í gámana? „Þegar starfsfólk okkar er að tæma gámana og fer með fatnaðinn í flokkun, þá kemur í ljós að það er búið að spenna upp læsinguna eða skemma gáminn með öðrum hætti,“ segir Gunnlaugur. 

Í október í fyrra lést karlmaður eftir að hafa farið inn í fatasöfnunargám í Kópavogi og fest þar. Gunnlaugur segir að í kjölfarið hafi Neytendastofa og Vinnueftirlitið farið yfir gámana. Þeir eru með öryggisvottun frá Þýskalandi, þaðan sem þeir koma. 

 

„Þeir eru öruggir. en við höfum verið að skoða möguleikana á að setja sérstaka slá yfir gatið til að minnka þá enn frekar líkurnar á að fólk sé að reyna að fara þarna ofan í,“ segir Gunnlaugur og segir að síðar í sumar verði hafist handa við að skipta út einhverjum gámum.

Víða um heim hafa orðið banaslys þegar fólk hefur fest í fatasöfnunargámum. Gunnlaugur segir óvíst hvort þar séu sams konar gámar og hér á landi. „Það eru auðvitað margs konar gámar í notkun. Okkar eru með þessa vottun og eiga að vera öruggir. En því miður, þá höfum við orðið vör við það að þetta er eitthvað sem er þekkt annars staðar.“

Finnst ykkur þið bera ábyrgð á því að fólk slasi sig á því að fara ofan í gámana ykkar?  „Við erum að gera hvað við getum, við erum með þessa vottuðu gáma, við erum með mjög skýrar merkingar og það var bætt í þær, það hefur verið bætt í þær að undanförnu þar sem það er varað við því að fólk reyni að verða sér út um eitthvað úr þeim. Þannig að ég held að ég við séum í öllu falli að gera hvað við getum.“