Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Hádegisfréttir: Sænska ríkisstjórnin er fallin

21.06.2021 - 12:15
Þingmenn á sænska þinginu samþykktu vantrauststillögu Svíþjóðardemókrata í morgun. Stefan Löfven forsætisráðherra fær viku til að ákveða hvort hann segir af sér eða boðar til nýrra kosninga. 

Kröpp sumarlægð gengur yfir vestanvert landið í dag með allt að þrjátíu og fimm metrum á sekúndu í hviðum. Varhugavert getur verið að vera á ferð með aftanívagna.

Enginn hefur greinst með Covid-19 hér á landi síðan á föstudag. Bóluefni frá Astra Zeneca berst til landsins fyrir bólusetningu í næstu viku. Mikilvægt er að fólk fylgist vel með skilaboðum því stundum verður að senda út boð með stuttum fyrirvara.

Nýkjörinn forseti Írans vill bætt samskipti við Sádi-Araba. Stjórnmálasamskipti þeirra hafa legið niðri síðustu fimm ár. 

Haraldur Benediktsson segir málefnin ráða varðandi áframhaldandi þátttöku í stjórnmálum. Hann neitar því hvorki né játar hvort hann heldur áfram.

Logi Ólafsson er hættur sem þjálfari karlaliðs FH í úrvalsdeildinni í fótbolta. Í tilkynningu segir að þetta hafi verið sameiginleg niðurstaða Loga og forsvarsmanna félagins. 

Veðurhorfur: Sunnan tíu til fimmtán metrar á sekúndu og rigning, en hvassara í vindstrengjum á Vesturlandi. Hægari vindur og þurrt norðaustan- og austanlands fram á kvöld. Hiti átta til sextán stig, hlýjast á Austurlandi. Vestan og síðar norðvestan fimm til þrettán á morgun. Víða dálítil rigning, súld eða léttar skúrir, en styttir upp að mestu suðvestantil síðdegis. Hiti sex til tólf stig, en allt að fimmtán stig á Suðausturlandi.

 

Valgerður Árnadóttir
Fréttastofa RÚV