Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

COVID-19: Bandaríkin verja áfram landamærin

21.06.2021 - 23:02
epa09284082 US President Joe Biden waves to the press as he walks to board Marine One, on the ellipse, at the White House in Washington, DC, USA, 18 June 2021. President Joe Biden will spend the weekend with family in Delaware.  EPA-EFE/TASOS KATOPODIS / POOL
 Mynd: EPA-EFE - UPI POOL
Evrópusambandið samþykkti í síðustu viku að aflétta ferðabanni Bandaríkjamanna til ríkja sambandsins, en bandarísk stjórnvöld hyggjast ekki opna landamæri sín gagnvart Evrópubúum eins og stendur, þrátt fyrir að samkomutakmörkunum og grímuskyldu hafi nú þegar verið aflétt í Bandaríkjunum að miklu leyti.

„Við hlökkum til að geta létt á ferðatakmörkunum, þegar vísindin leyfa,“ hefur AFP-fréttastofan eftir Ned Price, talsmanni bandaríska utanríkisráðuneytisins. Stjórnvöld segja afléttingar ferðatakmarkana velta á því hver þróunin verður í faraldrinum og hvernig öðrum ríkjum tekst til að komast fyrir útbreiðslu hans. Þá spili einnig inn í hvernig ný afbrigði veirunnar kunni að haga sér. Enn eru að mestu bannaðar ferðir frá Evrópusambandinu, Bretlandi, Brasilíu, Kína, Indlandi, Íran og Suður-Afríku. 

Biden hefur heitið því að bæta samskipti Bandaríkjanna við hin ýmsu ríki eftir stormasama forsetatíð forvera hans, Donalds Trumps, og hitti marga af leiðtogum Evrópuríkja á fundum í síðustu viku. Hann hefur þó sagt skýrt að hann ani ekki að því að opna landið fyrir ferðamönnum, eins og Evrópusambandið hefur gert. Bandarísk stjórnvöld stefna að því að framlengja ferðabann gagnvart Mexíkó og Kanada 21. júlí.

Tilslakanir Evrópusambandsins á ferðatakmörkunum gagnvart Bandaríkjamönnum byggðu ekki á forsendu um að Bandaríkin gerðu slíkt hið sama gagnvart evrópskum ferðamönnum. Þær voru drifnar áfram af þrýstingi ýmissa aðildarríkja á að endurvekja ferðaþjónustuna.

AFP-fréttastofan hefur eftir prófessor við Brookings Institute í Washington að Biden forgangsraði heilsu yfir allt annað og taki enga áhættu á að hleypa faraldrinum aftur á skrið. 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV