Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Ballarin neitar að borga 40 milljónir

21.06.2021 - 19:02
Michele Roosevelt Edwards í viðtali við Ingólf Bjarna Sigfússon á setri hennar í Virginíu í nóvember 2020.
 Mynd: Ingvar Haukur Guðmundsson - RÚV/Kveikur
Michele Ballarin, sem keypti þrotabú WOW-air, neitar að greiða fjörutíu milljón króna reikning sem Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í vetur að hún ætti að greiða. Dómur á Íslandi hafi enga þýðingu í Bandaríkjunum.

Ekkert ber á fjólubláum WOW-flugfélögum, þrátt fyrir yfirlýsingar Michele Ballarin í Kveiks-viðtali fyrr á árinu.

Í staðinn fjölgar fregnum af óvenjulegum viðskiptaháttum, til dæmis vegna bókunarkerfis sem WOW og Ballarin keyptu af íslensku hugbúnaðarfyrirtæki en greiddu aldrei fyrir.  

Um miðjan janúar féll dómur einmitt vegna þessa máls í Héraðsdómi Reykjavíkur. WOW LLC, móðurfélag WOW á Íslandi, var dæmt til að greiða ríflega 40 milljóna króna reikning auk dráttarvaxta, enda gat lögmaður WOW ekki sýnt frá á neina galla á hugbúnaðinum. Ætti málinu þá ekki að vera lokið?

„Með því að áfrýja ekki máli, þá sættirðu þig við niðurstöðu Héraðsdóms. Þannig að það kemur verulega á óvart að félagið lýsir því yfir að það ætli ekki að virða niðurstöðu dómstóls sem það sjálft lagði þó til að yrði sá aðili sem myndi skera úr um ágreining milli aðila, ef hann kæmi upp,“ segir Haukur Örn Birgisson, lögmaður Mavericks hugbúnaðarfyrirtækisins.
  
Ballarin vísar til þess að Bandaríkin viðurkenni ekki lögsögu dómstóla erlendis, en sá þó háttur er hafður á víða í samræmi við svokallað Lúganó-samkomulag, sem Bandaríkin eiga ekki aðild að. 

„Maður auðvitað efast pínulítið um hvort það sé í eitthvað að sækja, það verður að koma í ljós eftir þessa leit,“ segir Haukur. „En það vekur þó sérstaka athygli, þetta viðhorf félags sem ætlar að stofna hérna og vera stórt á Íslandi, á íslenskum farþegamarkaði, skuli sýna það viðhorf að er það bjátar eitthvað á þá er bara sagt „heyrðu, þið verðið bara að koma og að sækja okkur til Bandaríkjanna því við ætlum ekkert að borga og fara eftir íslenskum lögum.“

Páll Ágúst Ólafsson, lögmaður WOW-air á Íslandi, vildi ekki veita viðtal þegar eftir því var leitað í dag.