Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Fylkir og Stjarnan með mikilvæga sigra

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Fylkir og Stjarnan með mikilvæga sigra

20.06.2021 - 19:07
Fylkismenn unnu góðan 3-1 sigur á Skagamönnum í Pepsi Max deild karla í fótbolta í kvöld. Þá töpuðu HK-ingar 2-1 fyrir Stjörnunni, sem vann sinn annan leik á tímabilinu.

Stjarnan og HK voru fyrir leikinn með sjö og sex stig í níunda og tíunda sæti deildarinnar. Leikurinn var því mikilvægur fyrir bæði lið en HK á auk þess leik inni á Stjörnuna. Hilmar Árni Halldórsson kom Stjörnumönnum yfir á 24. mínútu eftir að hann stýrði skoti frá Heiðari Ægissyni inn í markið. 

Forysta Stjörnumanna tvöfaldaðist svo 6 mínútum síðar þegar Emil Atlason skoraði gott skallamark eftir fyrirgjöf frá Þorsteini Má Ragnarssyni og staðan 2-0 fyrir Stjörnunni í hálfleik. HK náði að klóra í bakkann á 74. mínútu með marki frá Stefan Alexander Ljubicic sem hafði komið inn á sem varamaður skömmu áður. 

Stjörnumenn fengu tækifæri til að gera út um leikinn strax í næstu sókn þegar brotið var á Þorsteini Má. Hilmar Árni smellti sér á punktinn en Arnar Freyr Ólafsson gerði vel í markinu og varði. Það dugði þó ekki fyrir HK-inga sem urðu að sætta sig við 2-1 tap. Stjarnan er með sigrinum komin upp í 8. sæti með 10 stig eftir 10 leiki. 

Á sama tíma mættust Fylkir og ÍA á Würth vellinum í Árbænum. Skagamenn eru á botni Pepsi deildarinnar en Fylkir var á ágætum stað í miðri deild. Skagamenn fengu draumabyrjun þegar Gísli Laxdal Unnarsson skoraði á 4. mínútu en Fylkismenn jöfnuðu leikinn með marki frá Helga Val Daníelssyni á 23. mínútu. 

Jafnt var í hálfleik 1-1 en á 54. mínútu komust Fylkismenn yfir með marki frá Óskari Borgþórssyni sem skoraði eftir stoðsendingu frá Ásgeiri Eyþórssyni. Fimm mínútum síðar bætti Dagur Dan Þórhallsson við marki fyrir Árbæinga eftir klaufagang Dino Hodzic í marki Skagamanna. Niðurstaðan verðskuldaður 3-1 sigur Fylkismanna sem eru í 7. sæti með 10 stig eftir 9 leiki. Skagamenn eru enn á botninum með 5 stig.