Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Eitt nýtt COVID smit innan sóttkvíar á Grænlandi í gær

Mynd með færslu
 Mynd: Oliver Schauf - Wikipedia
Eitt nýtt kórónuveirusmit bættist við í Nuuk, höfuðstað Grænlands í gær. Henrik L. Hansen landlæknir segir þó enga ástæðu til að örvænta enda hafi viðkomandi verið í sóttkví.

Hansen segir í samtali við KNR, grænlenska sjónvarpið, að í raun hafi ekki komið á óvart að fleiri smit greindust innan þess þrönga hóps sem nú er í sóttkví.

Nú hafa þeir tveir sjúklingar sem lágu á gjörgæsludeild verið fluttir á almenna COVID-deild og eru á batavegi að sögn Hansen. Auk þess segir hann að nú sé bólusett við sjúkdómnum um allt land.

Áfram verður haldið að skima íbúa höfuðstaðarins á mánudaginn og Hansen hvetur öll þau sem telja sig hafa smitast til að mæta. Þannig verði hægt að tryggja að smit dreifist ekki um Nuuk.