Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Blóðsöfnun minni í faraldrinum

20.06.2021 - 18:42
Mynd með færslu
 Mynd: Magnús Atli Magnússon - Landinn/RÚV
Blóðsöfnun hefur verið minni hjá Blóðbankanum í faraldrinum en í venjulegu árferði. Vigdís Jóhannsdóttir einingastjóri blóðsöfnunar hjá Blóðbankanum segir að bankinn hafi þó alltaf geta fylgt þörf heilbrigðiskerfisins.

„Við þurfum alltaf að halda okkur við efnið og fá blóðgjafana inn, sérstaklega núna þegar allir eru að fara í sumarfrí. Bóka tíma og koma að gefa svo að við séum vel stödd um mitt sumar,“ sagði Vigdís í samtali við fréttastofu.

Kórónuveirufaraldurinn hefur haft mikil áhrif víðast hvar í samfélaginu og hefur áhrifa hans gætt í starfsemi Blóðbankans. Blóðsöfnun var eilítið minni í ár en þau síðustu.

„Hún hefur verið svolítið minni. Það er kannski 10% minna en í venjulegu árferði en það er í takt við notkunina,“ segir Vigdís og segir að notkunin hafi verið minni hjá heilbrigðiskerfinu til að mynda vegna færri framkvæmdra valaðgerða á meðan faraldurinn stóð sem hæst. „Við höfum alveg alltaf geta fylgt þörfinni,“ segir Vigdís.

Blóðgjafarnir ótrúlegir

Hún segir þó að blóðgjafar hafi ekki veigrað sér við að mæta í blóðgjöf þrátt fyrir faraldurinn. „Þeir eru alveg ótrúlegir þessir blóðgjafar okkar. Þeir hafa hringt og verið óhræddir við að svara kallinu. Við höfum aðeins fundið fyrir því að við þurfum að geyma suma í nokkra daga vegna skurks í bólusetningu,“ sagði Vigdís en blóðgjafar þurfa að bíða í sjö daga eftir bólusetningu vilji þeir gefa blóð.

Breytingar hafa þá orðið á ferlinu í kringum blóðgjöf. Allir þurfa nú að panta tíma og er það gert til þess að tryggja að fjöldi fólks verði meiri en gildandi samkomutakmarkanir hafa leyft. Þá hafa einnig orðið breytingar á veitingum sem blóðgjöfum eru veittar eftir gjöf.

Stefnt að því að Blóðbankabíllinn fari af stað í haust

Blóðbankabíllinn, sem hefur keyrt í skóla, fyrirtæki og nærliggjandi sveitarfélög Reykjavíkur, hefur þá ekki verið starfræktur þar sem erfitt er að tryggja sóttvarnir um borð. Rekja megi lítinn fjölda nýrra blóðgjafa meðal annars til þess.

Vigdís segir að vonast sé til þess að hægt verði að fara með bílinn af stað að nýju í haust og segir að þangað til verði eingöngu hægt að gefa blóð við Snorrabraut og á Glerártorgi á Akureyri.

 

Andri Magnús Eysteinsson