Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Blikar sigruðu - Jason Daði fluttur með sjúkrabíl

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Blikar sigruðu - Jason Daði fluttur með sjúkrabíl

20.06.2021 - 21:12
Breiðablik og FH mættust á Kópavogsvelli í 9. umferð úrvalsdeildar karla í knattspyrnu í kvöld. Blikar höfðu betur, 4-0, en það sló skugga á frábæran leik liðsins að Jason Daði Svanþórsson var fluttur af velli á 40. mínútu eftir að hann lagðist niður og hélt um brjóstkassann. Við upphaf seinni hálfleiks bárust fréttir af því að hann væri allur að braggast.

Blikar höfðu unnið þrjá leiki í röð áður en þeir töpuðu fyrir Valsmönnum í síðustu umferð en FH-ingar hafa aðeins sigrað þrjá leiki þar sem af er tímabili og unnu síðast leik þann 17. maí. Eitthvað þurfa FH-ingar að bíða lengur eftir sigrinum enn þeir sáu lítið til sólar í leiknum. 

Á 18. mínútu opnaði Kristinn Steindórsson markareikning Blikanna eftir fyrirgjöf frá Davíð Ingvarssyni. Davíð var svo aftur á ferðinni nokkrum mínútum seinna þegar hann sendi boltann yfir á Jason Daða sem kom sér einn í gegn og afgreiddi boltann í netið, 2-0. 

Á 33. mínútu sló þögn á Kópavogsvöll þegar Jason Daði lagðist á jörðina og virtist halda um brjóstkassann. Fljótlega voru börur komnar inn á völlinn og vallarþulur óskaði eftir lækni úr stúkunni. Fólki var eðlilega brugðið í þessum aðstæðum enda hjartastopp Christian Eriksen á dögunum mörgum ofarlega í huga. Það leit þó út fyrir að Jason Daði hefði verið með meðvitund en hann var á endanum borinn út af vellinum og loks fluttur í burt með sjúkrabíl. 

Leikurinn fór aftur af stað og Viktor Karl Einarsson skoraði þriðja mark Blika á fimmtu mínútu í uppbótatíma, staðan 3-0 í leikhléi. Fljótlega eftir að seinni hálfleikur var flautaður á tilkynnti vallarþulurinn að fréttir hefðu borist af Jasoni Daða og að hann væri allur braggast. 

Á 57. mínútu fékk FH-ingurinn Eggert Gunnþór Jónsson dæmda á sig vítaspyrnu fyrir að toga Viktor Örn Margeirsson niður þegar hornspyrna frá Höskuldi Gunnlaugssyni sveif inn á teig FH-inga. Þetta var fimmta vítið sem dæmt var í leikjum kvöldsins í deildinni en ólíkt hinum fjórum þá endaði vítaspyrna Árna Vilhjálmssonar í netinu. Þetta reyndist lokamark leiksins og niðurstaðan 4-0 sigur Blika sem eru þá í 4. sæti deildarinnar með 16 stig eftir 9 leiki, jafnmörg stig og KA í 3. sæti en Norðanmenn eiga leik til góða. FH er í 6. sæti með 11 stig. 

Á sama tíma og þessi leikur fór fram áttust Keflavík og Leiknir Reykjavík við í nýliðaslag í Keflavík. Fyrir þann leik var Keflavík í 11. sæti deildarinnar með 6 stig en Leiknir með 8 stig í 7. sæti. Joseph Arthur Gibbs kom Keflvíkingum yfir á 5. mínútu og það reyndist eina mark leiksins. Sigurinn þýðir að Keflavík fer upp fyrir Leikni í 9. sætið með leik til góða.