Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Sameinuðu þjóðirnar vilja banna vopnasölu til Mjanmar

epa06201620 (FILE) - Myanmar's State Counselor Aung San Suu Kyi talks to rural youth during her peace talk conference meeting with Myanmar rural youth at the Myanmar Convention Center - 2 in Naypyitaw, Myanmar, 11 April 2017 (reissued 13 September
Aung San Suu Kyi. Mynd: EPA-EFE - EPA
Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna kallaði eftir því í gær að sala vopna til Mjanmar verði stöðvuð. Jafnframt brýnir það fyrir herstjórninni sem ríkir í landinu að virða niðurstöður kosninga í nóvember síðastliðnum.

Það er Reuters sem greinir frá þessu. Í ályktuninni segir einnig að herstjórninni beri að láta þá stjórnmálamenn sem eru í haldi tafarlaust lausa, þeirra á meðal Aung San Suu Kyi.

Mótmælendur í Mjanmar bera blóm í hárinu í dag í tilefni 76 ára afmælis hennar. Fjöldi fólks hefur birt myndir af sér á samfélagsimiðlum þar sem það hefur greitt hárið með svipuðum hætti og hún er þekkt fyrir að gera.

Víða hafa verið sett upp skilti þar sem henni er óskað heilla og góðrar heilsu á afmælisdeginum. Deginum ver Aung San Suu Kyi í stofufangelsi líkt og hún hefur gert frá því herinn steypti henni af stóli í febrúar.

Ályktun Allsherjarþingsins var samþykkt af fulltrúum 119 ríkja en það var fulltrúi Hvíta-Rússlands sem fór fram á atkvæðagreiðsluna og reyndist sá eini sem greiddi atkvæði á móti.

Fulltrúar 36 ríkja sátu hjá, þar á meðal Kína og Rússlands. Christine Schraner Burgener, sérstakur sendifulltrúi Sameinuðu þjóðanna í Mjanmar, segir mikla hættu á blóðugu borgarstríði í landinu.

Tækifærið til að snúa valdaráninu við er að renna úr greipum að mati hennar og því beri að bregðast hratt við. Viðhorf nokkurra fulltrúa þeirra ríkja sem sátu hjá, er að um innanríkismál Mjanmar sé að ræða og öðrum þykir ekki tekið nægilega á bágum aðstæðum Róhíngja í yfirlýsingunni.

António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna segir það viðhorf óásættanlegt að valdarán af hálfu hers þyki almenn regla.

Herinn í Mjanmar heldur því fram að svik hafi verið í tafli við kosningarnar í nóvember, ríkisstjórnin hafi ekki vljað taka á því og þess vegna hafi völdum verið rænt. Alþjóðlegir eftirlitsmenn hafa fullyrt að ekkert sé að athuga við framkvæmd kosninganna.