Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Opnuðu Fluglínuna í Perlunni

19.06.2021 - 18:37
Mynd með færslu
 Mynd: Andri Magnús Eysteinsson
Fjöldi fólks lagði leið sína í Perluna í Öskjuhlíð í dag en þar hefur ein stærsta svifbraut landsins, Fluglínan, verið opnuð. Mikil stemning var á útsýnispalli Perlunnar á meðan að gestir biðu spenntir eftir því að röðin kæmi að þeim.

Katrín Aagestad Gunnarsdóttir, markaðsstjóri Nova sem stendur að baki svifbrautinni ásamt Perlunni sagði í samtali við fréttastofu í dag að Fluglínan væri ein af upplifunum sumarsins.

„Þetta eru 230 metrar sem þú flýgur og þú kemst á allt að 50 km/klst hraða svo þú svoleiðis þýtur inn í sumarið,“ sagði Katrín.

Fluglínan eru tvær línur sem fara frá einum tanki Perlunnar og 230 metra niður hlíðina niður í Öskjuhlíðsskóg.

Andri Magnús Eysteinsson