Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Erill á Akureyri í nótt

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Einn gisti fangageymslur Lögreglunnar á Akureyri í nótt sökum ölvunar og tveir ökumenn voru stöðvaðir vegna ölvunaraksturs. Töluverður erill var í bænum að sögn lögreglunnar en þar fara nú fram Bíladagar.

Í Reykjavík hafði lögreglan einnig í ýmsu að snúast. Tveir voru mældir á yfir 100 km/klst hraða í Breiðholti þar sem hámarkshraði er 50 km/klst. Annar ökumannanna var einungis 17 ára gamall og verður forráðamönnum og Barnavernd kynnt málið. Þá var tilkynnt um hundaþjófnað í efra-Breiðholti skömmu eftir klukkan 1 í nótt.

Maður hafði bundið hund sinn fyrir utan verslun í hverfinu og er maðurinn sneri aftur var hundurinn á bak og burt. Ung kona hefur verið handtekin grunuð um þjófnaðinn og var hún vistuð í fangageymslu lögreglu.

Tveir ökumenn voru stöðvaðir í Mosfellsbæ grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna. Annar ökumannanna var einungis 17 ára og er málið unnið með aðkomu móður og Barnaverndar.

Þá var maður handtekinn í miðbænum á öðrum tímanum í nótt grunaður um eignaspjöll og hylmingu. Maðurinn var vistaður í fangageymslu lögreglu.

Andri Magnús Eysteinsson