Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Besti maður Vals: Skrítið og erfitt tímabil

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Besti maður Vals: Skrítið og erfitt tímabil

19.06.2021 - 14:45
Anton Rúnarsson leikmaður nýkrýndra Íslandsmeistara Vals segir að nýafstaðið keppnistímabil hafi einkennst af hökti, meiðslum og leiðindum. Valsmenn urðu í 3. sæti í deildarkeppninni en unnu svo öruggan sigur á Haukum í úrslitaeinvíginu um meistaratitilinn.

„Það má alveg segja að við séum að toppa á réttum tíma. Þetta er búið að vera rosalega skrítið tímabil. Erfitt andlega og líkamlega og liðið er búið að fara í gegnum sveiflur upp og niður," segir Anton sem hafði þó alltaf trú á því að Valsmenn gætu unnið titilinn stóra.

„Ég hafði alltaf trú á því að við gætum orðið Íslandsmeistarar þótt að það sé fáránlegt að segja það. Þetta tekur bara alltaf tíma. Það var hökt, það voru meiðsli og leiðindi en svona er bara sportið.

Vildi kveðja uppeldisfélagið með topp frammistöðu

Anton var valinn besti leikmaður úrslitakeppninnar og skoraði 19 mörk í leikjunum tveimur gegn Haukum. Þetta var kveðjuleikur hans með Val en hann er á förum til þýska B-deildarliðsins Emsdetten.

„Hvað vill maður meira en að enda á titli og eiga góða frammistöðu. Mér er alveg sama þótt ég hafi skorað 10 mörk [í kvöld] en ég vildi sýna topp frammistöðu fyrir uppeldisfélagið mitt.

 

Mynd: Mummi Lú / RÚV

Þurftum enga ofurleiki til að standa í Haukum

Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, tekur undir með Antoni að tímabilið hafi reynst Valsmönnum erfitt. „Já, tímabilið var skrítið, það var okkur erfitt. Okkur skorti stöðugleika á köflum en við enduðum samt í þriðja sætinu. Þetta var nú ekki verra en það. Haukarnir voru bara bestir á tímabilinu og unnu deildina sannfærandi."

Snorri segist hafa fengið á tilfinninguna þegar skammt var eftir af dieldarkeppninni að Valsmenn gætu gert atlögu að Íslandsmeistaratitlinum í úrslitakeppninni. „Ég veit það manna best að í dag er ég með besta lið landsins í höndunum. Einar Þorsteinn umturnar okkar leik. Fyrir mér þurftum við ekkert að eiga einhverja ofurleiki til þess að standa í Haukunum."

Mynd: Mummi Lú / RÚV

Tengdar fréttir

Handbolti

Ég vissi ekki að það væru svona margir Valsarar

Handbolti

Valur Íslandsmeistari í handbolta