Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Um eitt prósent mannkyns á flótta eða í hælisleit

epa03273984 An Afghan refugee boy poses for a photograph as he waits to leave with his family for Afghanistan, at United Nations High Commissioner for Refugees (UNHCR) registration center in Chamkani, on the outskirts of Peshawar, Pakistan, 20 June 2012,
 Mynd: EPA
Fólki á flótta undan ofbeldi og ofríki fjölgaði í heiminum um þrjár milljónir á síðasta ári þrátt fyrir heimsfaraldur kórónuveiru. Næstum helmingur alls flóttafólks og hælisleitenda er undir 18 ára aldri. Þetta sýnir ný skýrsla Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna.

AFP fréttaveitan hefur eftir Filippo Grandi yfirmanni Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna að ríflega 82 milljónir séu nú á flótta eða í hælisleit en það er tvöfalt það sem var fyrir áratug. Það er sömuleiðis eitt prósent mannfjölda heimsins.

„Allt stöðvaðist vegna faraldursins, þar á meðal efnahagur heimsins. En stríð, átök, ofbeldi, ofsóknir og mismunun, allir þeir þættir sem reka fólk á flótta hættu ekki,“ segir Grandi. Þegar faraldurinn skall á var talið að draga myndi úr fólksflótta en sú varð ekki raunin. 

Það sem gerðist var að fólki á flótta innan eigin heimalands fjölgaði enda lokuðu um 164 ríki landamærum sínum að sögn Grandis. Um það bil helmingur þeirra gerði engar undantekningar þótt flóttafólk leitaði þar hælis.

Fjöldinn nú er því sá mesti frá því tekið var skipulega að telja það fólk sem er á flótta í heiminum. Samkvæmt skýrslu flóttamannastofnunarinnar heldur fólk áfram að flýja langvinn átök í Sýrlandi, Afganistan, Sómalíu og Jemen en aukið ofbeldi í Eþíópíu og Mósambík jók enn á vandann.  

Tveir þriðju hlutar flóttafólks koma frá fimm löndum, Sýrlandi, Venesúela, Afganistan, Suður Súdan og Mjanmar. Langflest flóttafólk hefst við í Tyrklandi eða 3,7 milljónir, í Kólombíu dvelst 1,7 flóttafólks og í Pakistan og Úganda 1,4 milljónir. Í Þýskalandi eru nú um 1,2 milljónir fólks á flótta. 

Drengir og stúlkur undir átján ára aldri telja 42% þeirra sem eru á vergangi í heiminum. „Sú staðreynd hve mörg börn fæðast í útlegð ætti að vera næg ástæða til að binda endi á allt þetta ofbeldi,“ segir Grandi. 

Hann segir þörfina fyrir aðstoð aukast ár frá árin en sífellt fækki þeim lausnum sem í boði séu fyrir fólk sem þurft hefur að flýja heimili sín.

„Leiðtogar heimsins þurfa að láta af ágreiningi og sjálfshyggju en beina frekar sjónum að því að koma í veg fyrir átök og tryggja virðingu fyrir mannréttindum.“