Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Sprittið komið til að vera óháð öllum faröldrum

18.06.2021 - 19:46
Mynd: ruv / ruv
Heimsfaraldurinn virðist koma vel við pyngju heildsala sem selja spritt. Það var handagangur í öskunni í upphafi faraldurs en nú hefur salan náð jafnvægi. Verslunarfólk segir sprittstandana komna til að vera.

Sprittsprenging

Eftir að kórónuveiran greindist fyrst á Íslandi í lok febrúar í fyrra rauk eftirspurn eftir spritti upp í rjáfur, fólk fór búð úr búð í leit sinni að sprittbrúsa og sumir hömstruðu. „Tíminn var þannig að það var bara hlaupið, allt okkar starfsfólk hljóp eins og það gat sko,“ segir Einar Kristjánsson, framkvæmdastjóri Rekstrarvara. Sama var upp á teningnum hjá heildsölunni Tandri, þar seldust þúsundir lítra á degi hverjum. Framleiðslustjórinn, Ervin Shala, var þó brattur í fréttum RÚV þann 5. mars í fyrra. „Það er allt í lagi, maður er bara með Ozzy Osborne á fóninum og Mama I'm coming home, þá er það allt í lagi, allt til að bjarga mannkyninu.“

Hagur vænkaðist í heimsfaraldri

Púlið skilaði sér. Tandur gerði árið upp á dögunum. Hagnaður fyrirtækisins nam tæpum 214 milljónum á síðasta ári, rúmlega fjórðungi hærri upphæð en árið áður. 

Rekstrarvörur hyggjast birta ársreikning sinn í ágúst. Einar segir að árið líti vel út, en nefnir þó að þrátt fyrir fordæmalausa sprittsölu hafi verið mikill kostnaður fólginn í því að útvega spritt með hraði, verðið rauk upp og hökt varð á framleiðslu og flutningi. Svo hjálpaði ekki að ferðaþjónustan, einn af stóru viðskiptavinunum, lagðist í dvala og keypti hvorki sápu né klósettpappír. 

Völlurinn þarf helling af spritti

Nú er faraldurinn vonandi í rénun, almenningur hefur dregið úr sprittkaupum en á móti kemur stóraukin notkun á Keflavíkurflugvelli og á hótelum. Einar segir að nú sé hægur stígandi í sölunni. Hann heldur að sprittið sé komið til að vera í verslunum, það sé krafa viðskiptavina, „að ég hafi val að spritta mig, eða kerruna mína, sem ég set barnið mitt í.“ Undir þetta tekur Guðmundur Marteinsson framkvæmdastjóri Bónus.

Fólk orðið meðvitaðra um hreinlæti

Í Krónunni hefur grímusala hrunið um 80 prósent  síðastliðnar vikur en sprittsalan hefur aðeins minnkað um fjórðung ef marka má sölutölur frá í byrjun júní, og í Krónunni verða sprittstandarnir áfram. „Til dæmis við inngang þegar þú tekur kerrur, í ávaxta- og grænmetisdeild, kjötborði og sérstaklega við útganginn þegar þú gerir upp innkaupin. Ég held við finnum það öll á eigin skinni að maður er meðvitaðri en áður um sóttvarnir og um hreinlæti,“ segir Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Krónunnar. 
 
Sprittið gæti því orðið fastur liður í rekstrarbókhaldinu til frambúðar.