Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Skógarbjörn felldur í borginni Sapporo í Japan

18.06.2021 - 05:32
Mynd með færslu
 Mynd: Wikipedia - Wikimedia commons
Veiðimenn felldu fyrr í dag skógarbjörn sem réðist á og slasaði fernt í borginni Sapporo á Hokkaídó-eyju í norðurhluta Japans. Björninn hafði yfirgefið heimkynni sín og fór mikinn víða um borgina.

Eitt hinna slösuðu er á fimmtugsaldri, annað á áttræðisaldri og það þriðja á níræðisaldri. Ekki er hafa verið gefnar upplýsingar um fjórða fórnarlambið.

Borgarstarfsmenn, lögreglumenn, veiðimenn og aðrir sem áhyggjur höfðu af hamaganginum í birninum voru kallaðir til. Ætlunin var að reyna að ná honum lifandi en fella hann ef þurfa þætti. Það varð úr.

Sjónvarpsstöð í borginni sýndi myndskeið þar sem sjá mátti björninn stökkva eftir íbúðagötu, hlaupa yfir fjölfarinn veg og hamast á herstöðvarhliði með þvílíkum látum að hermenn forðuðu sér á hlaupum.

Einn hermaður særðist í átökum við björninn og annar varð illa úti eftir að björninn réðist að honum aftan frá.

Japanska almannasjónvarpsstöðin NHK greindi frá því að skólum hefði verið lokað og nokkrum flugferðum frestað á svæðinu meðan björninn fór þar hamförum.

Sérfræðingar hafa varað við því að skógarbirnir kunni að leita í auknum mæli úr náttúrulegum heimkynnum sínum að híbýlum manna í ætisleit.