Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Mótefnafólk getur fengið bólusetningu

18.06.2021 - 18:35
Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RUV
Þeir sem greinst hafa með kórónuveiruna áður eða af öðrum sökum myndað mótefni gegn veirunni geta nú mætt í bólusetningu. Frá þessu greinir sóttvarnalæknir í tilkynningu.

Hingað til hefur bólusetning ekki staðið þessum hópi til boða og nokkuð verið um að fólki hafi verið vísað frá á bólusetningarstöðum. Mælt er með því að fólk fari ekki í bólusetningu nema liðnir séu þrír mánuðir frá staðfestri sýkingu.

Í samtali við fréttastofu segir Hjördís Guðmundsdóttir, samskiptastjóri almannavarna, að þetta sé gert til að efla vörn gegn endursýkingu. Enn fremur sýni erlendar rannsóknir að bólusetning geti mildað eftirköst þeirra sem þeirra enn glíma við þau.

Síðustu árgangar á höfuðborgarsvæðinu fá boð í bólusetningu í næstu viku.

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu, segir að  þeir sem tilheyri þessum árgöngum og hafi fengið Covid sé óhætt að mæta í bólusetningu með árganginum.  Þá er einnig stefnt að því að boða þennan hóp sérstaklega í bólusetningu í næstu viku, sennilega á þriðjudag. 

Um 6.500 manns eru með mótefni gegn veirunni, svo vitað sé til, þar af 5.100 á höfuðborgarsvæðinu.

alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson
Fréttastofa RÚV