Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Gætu fært leikina frá Englandi til Ungverjalands

epa09266746 Supporters arrive at Wembley Stadium prior to the UEFA EURO 2020 group D preliminary round soccer match between England and Croatia in London, Britain, 13 June 2021.  EPA-EFE/ANDY RAIN
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Gætu fært leikina frá Englandi til Ungverjalands

18.06.2021 - 09:13
Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, segir að það sé möguleiki á því að undanúrslita- og úrslitaleikir Evrópumóts karla í fótbolta verði færðir frá Englandi og til Ungverjalands, verði sóttvarnarreglur í Bretlandi ekki rýmkaðar.

Undanúrslitaleikir mótsins verða spilaðir 6. og 7. júli og úrslitaleikurinn 11. júlí. Allir leikirnir þrír eiga að fara fram á Wembley í Lundúnum. Til stóð að rýmka sóttvarnarreglur í Bretlandi 21. júní en Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, frestaði þeim fyrirætlunum um fjórar vikur á dögunum. Það þýðir að takmarkanir verða enn í gildi í Bretlandi þegar undanúrslita- og úrslitaleikir EM verða spilaðir. Nú þurfa ferðamenn að fara í 10 daga sóttkví við komuna til landsins.

UEFA hefur farið fram á undanþágu frá þessum reglum og sagt við heilbrigðisyfirvöld á Bretlandi að hægt væri að takmarka dvöl stuðningsmannanna, þeir yrðu skimaðir og fengju aðeins að ferðast til og frá Wembley. Þeir færu svo úr landi beint eftir leik. 

Samkvæmt The Times er Puskás Aréna í Búdapest varavöllur, geti UEFA ekki fengið undanþágu frá þessum reglum en í næstu viku getur fólk ferðast til Ungverjalands án nokkurra takmarkana. Verði leikirnir spilaðir í Búdapest er ljóst að mun fleiri geta mætt á völlinn en 60 þúsund manns fengu að mæta á leik Ungverjalands og Portúgal í F-riðlinum. Samkvæmt núgildandi reglum í Bretlandi mega aðeins 22.500 manns mæta á Wembley.