Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Ferðamennirnir eru með delta-afbrigðið

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Ferðamennirnir tveir sem reyndust smitaðir af kórónuveirunni eru með indverska afbrigði veirunnar sem einnig er nefnt delta-afbrigðið. Samkvæmt upplýsingum frá sóttvarnasviði embættis landlæknis hafa enginn önnur smit verið rakin til fólksins. Maðurinn og konan eru frá Miðausturlöndum og komu hingað fyrir tíu dögum. Smitin uppgötvuðust þegar þau undirbjuggu brottför frá Íslandi og fóru í skimun til að geta framvísað PCR-vottorði í því landi sem þau hugðust fara til.

Maðurinn og konan eru bæði fullbólusett og talið er að þau hafi smitast af veirunni rétt áður en þau komu til Íslands og þess vegna hafi þau ekki greinst við skimun hér. 

Guðrún Aspelund, yfirlæknir á sóttvarnasviði hjá embætti landlæknis, segir að fólkið hafi verið í gistingu þar sem þau voru bara tvö. Þau ferðuðust um landið á eigin vegum tvö saman og áttu í litlum samskiptum við aðra. Þau keyptu eða sóttu sér mat en virðast ekki hafa borðað á veitingastöðum.

Parið er ekki veikt en þau dvelja í einangrun í Farsóttahúsinu. 

Fréttinni hefur verið breytt. Upphaflega stóð að fólkið hefði ekki farið víða en hið rétta er að þau ferðuðust um landið á eigin vegum.